Í nýjasta þætti Spursmála var farið yfir það helsta sem var um að vera á samfélagsmiðlum hjá ráðamönnum þjóðarinnar í vikunni. Yfirferðina má sjá í meðfylgjandi myndskeiði en henni verður einnig gerð skil hér að neðan með líflegum hætti.
Einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni að „suns out guns out“ hafi svolítið verið þema vikunnar og mögulega er það þema bara komið til að vera. Ansi freistandi að láta á það reyna að fá þrjár freknur á smettið með því að sleikja sólina í þetta korter sem hún lætur sjá sig.
Sólskinsvíman virðist líka stuðla að aukinni hreyfingu og í kjölfarið eru allir samfélagsmiðlar morandi í einhvers konar hlaupa-, hjóla-, ræktar-, kílómetrafjölda- og fjallahæðamont færslum. Sér í lagi á samfélagsmiðlum stjórnmálafólks sem finnur þörf fyrir að monta sig af öllu sem það gerir.
En það var einmitt hreyfimont sem einkenndi samfélagsmiðlafærslurnar í líðandi viku ásamt afmælismonti.
Það áttu greinilega allir og ömmur þeirra afmæli á dögunum. Kannski ekkert eins íslenskara en það að allir eigi afmæli á þessum tíma árs. Því þá eru alltaf sléttir níu mánuðir frá verslunarmannahelginni. Sem þýðir full meðganga. Sem þýðir að gröðustu partídýrin hafi hent í getnað.
En hvað um það.. Áfram með smjörið!
Fjalla-Halla, Hlaupa-Halla eða bara okkar eina sanna Halla Hrund hentist í Herjólf um síðustu helgi og hljóp maraþon ásamt eiginmanni sínum í Lundahlaupinu í Eyjum í blíðskaparveðri. Hún fór sko létt með það og blés varla úr nös - geggjuð!
Togga Gunn trimmaði upp Skálafell frá Ytri-Þurá í vikunni. Er einhver með landakort hérna „pretty please“? Það eru kannski ekkert allir kunnugir staðháttum um allar heimsins bújarðir og sveitabýli sko. En hún var alla vega sérlega í góðum félagsskap vinkvenna sinna þeirra Tobbu og Birtu. Birta er sko loðvinkona Toggu sem greinilega fær mjög oft og mikið að éta og hefur gott af því að fara stundum upp á fjöll. Án þess að hér sé verið að fitusmána menn og dýr.
Og svo fór hún líka til Svíden með Höllu Tomm, forseta og Covid-Ölmu. Ég nefnilega held sko að þær séu orðnar bestís núna. Þær kíktu í ríkisheimsókn til Svíakonungs. Þar hittu þær alla sænsku elítuna og fullt af einhverjum silkihúfum sem meðalgreindir mannapar eins og ég og þú kunnum engin deili á.
Heiðvirtasti borgarinn, Heiða Björg borgarstjóri, hleypti þyngdarstjórnunarátakinu Hjólað í vinnuna af stokkunum á dögunum og þar með þeysist hún nú um alla borg á reiðhjóli eins og Gísli Marteinn vinur hennar. Fyrirmyndarborgarar þau tvö!
Hinn margrómaði sjálfukóngur Íslands, Pawel Bartoszek, var í mega stuði í vikunni og skilaði þrefaldri heimavinnu. Hann er heldur betur búinn að stúdera réttu handtökin til þess að taka hina fullkomna sjálfu. Sjáið þennan snúð?! Mesta krútt í heiiiimi!
Pírataprinsessan og loftslagsriddarinn, Dóra Björt, flaug frá Keflavíkurflugvelli til Litháen í flugvél, mjög stórri farþegaflugvél eða sko mjög stórri breiðþotu sem brennir mjög miklu eldsneyti, til að vera viðstödd loftslagsráðstefnu og sækja viðurkenningarskjal í þágu loftslagsmála. Mhm, já einmitt. Talandi um að vera kannski „ogguponkupínulítiðsmá“ í þversögn við sjálfan sig. En vonandi var gaman. Alltaf gaman að komast á Loksins-bar í Fríhöfninni og ná sé í eins og eitt tyggjókarton þar í leiðinni. Eða er það alveg búið eða?
Inga Sæland hugsaði um síns eigins typpi í vikunni eins og svo oft áður og tryggði sér pláss á hjúkrunarheimilinu Ási í Hveragerði - ekki er hún nú að yngjast neitt frekar en við hin. En hún tók fyrstu skóflustunguna að nýju hjúkrunarheimili þar í bæ og gerði hún það bara býsna vel. Augljóslega ekki fyrsta eða síðasta djúpa holan sem hún grefur. EINN, TVEIR OG LYFTA!
Já, ég var búin að segja ykkur frá afmælis dobíunni og hún Rósa Guðbjarts veit heldur betur hvað klukkan slær. Hún segir sextugsaldurinn vera hinn nýja fertugsaldur. Við skulum bara leyfa henni að halda það. Maður á að bera virðingu fyrir eldra fólki. Þessari rándýru mynd úr sextugsafmæli blaðasnápsins Drésa Magg deildi hún á Instagram. Númer hvað ætli þessi samkoma sé sem partírefurinn Jakob Frímann Magnússon lætur sjá sig í? Ég efast um að einhver kunni að telja svo hátt.
Snúlli Másson átti afmæli á dögunum og afsannaði kenningu Rósu. Ef maður vissi ekki betur þá héldi maður að hann hefði verið að fagna 58 ára afmæli en ekki 28 ára bara svona miðað við áhugamál, talsmáta, klæðaburð og fas og ýmislegt fleira. Samt alltaf flottur sko og mesti snúllinn. Það breytist aldrei. Til hammó með ammó snúllhaus.
Hildur Björns fagnaði ellefu ára afmælisdóttur í vikunni með sætri myndafærslu á Instagram. svo kjút mæðgur. En svo vekur það alltaf jafn mikla athygli hvað Hildur Björns, þessi rólyndis, sæta og geðþekka dúkkustelpa, verður alltaf reið þegar hún ræðir um öll skipulagsslysin í borginni. Ég er alveg sammála henni þarna. Hvernig á fólk að geta tanað sem býr í öllum þessum skuggahverfum víðs vegar um borg? Er enginn að pæla í D-vítamín skorti landsmanna lengur?
Sanna Magdalena var 33 ára afmælisprinsessa á dögunum. Til hamingju með þig flotta kona! Tók hún til hendinni og sótthreinsaði heimilið áður en hún hélt upp á árin þrjátíu og þrjú í góðra vina hópi. Dulle deppa - við erum stolt af þér.
Krulli Sibbason, bróðir Áslaugar Örnu, átti líka afmæli í vikunni og að sjálfsögðu deildi hún krúttlegri afmæliskveðju til bróður síns. Enda hafa þau systkinin gengið í gegnum þunnt og þykkt saman. Svo var náttúrulega alger flugeldasýning þegar Áslaug greindi frá því að hún ætli að setjast á skólabekk í New York. Við erum strax svo sorgmædd af söknuði að við viljum varla ræða þetta.
Ingibjörg Isaksen átti líka afmælisdóttur á dögunum og skemmti fjölskyldan sér vel á einhverjum boltakappleik einhvers staðar í útlöndum. Jeiiij gaman.
Heyrðu svo er það afmæli aldarinnar. Ásdís Kristjáns borgarstjóri í Kópavogi, jú víst, Kópavogur er víst borg! Hún ætlar að bjóða landsmönnum öllum í köku og meððí í Smáralind á laugardaginn í tilefni af sjötíu ára afmæli Kópavogsborgar. Kópavogs-gangsterinn Herra hnetusmjör ætti náttúrulega að henda í afmælissöng. Ég skal hjálpa þér Herra, bara svona til að koma þér af stað:
Sjötíu ár - Kóp city
Að búa þar er bara alls ekkert sjittí
Með Ásdísi Kristjáns í brúnni
Hey náið í champagne handa frúnni
Af dýrustu sort
Þá sleppum við að senda bænum afmæliskort
Sjáumst í Smáralind!
Nýjasta þátt Spursmála má í heild sinni nálgast í spilaranum hér að neðan: