Sérstakur saksóknari gerði verktakasamning við fyrirtækið PPP sf. um rannsókn á tilteknu sakamáli. Fram kemur í samningnum, sem Morgunblaðið hefur undir höndum, að fyrirtækið eigi að ljúka rannsókn sem eigendurnir höfðu áður sinnt sem starfsmenn saksóknara.
Samningurinn er undirritaður af Ólafi Þ. Haukssyni sérstökum saksóknara og eigendum PPP sf., þeim Guðmundi Hauki Gunnarssyni og Jóni Óttari Ólafssyni. Þeir tveir síðarnefndu stofnuðu fyrirtækið meðan þeir voru enn starfsmenn sérstaks saksóknara og í desember 2011 störfuðu þeir samhliða fyrir embættið og nýstofnað fyrirtæki sitt, að því er virðist að sömu verkefnum.
Eftir að grunur vaknaði um að þeir hefðu stolið gögnum hjá embættinu og rofið þagnarskyldu voru þeir kærðir til ríkissaksóknara.
Í skýrslutöku lögreglu af Ólafi Þ. Haukssyni, sem blaðið hefur einnig undir höndum, kemur fram að honum hafi verið vel kunnugt um stofnun PPP og markmið fyrirtækisins, sem voru afar áþekk störf en fyrir slitastjórnir, þrotabú og aðra ríka hagsmunaaðila.
Í gær ákvað ríkissaksóknari að fela lögreglunni á Suðurlandi rannsókn málsins, en líkt og fram kom í blaðinu í gær snýr hluti þess að embættisfærslu Sigríðar J. Friðjónsdóttur ríkissaksóknara, sem lét rannsókn gagnaleka niður falla 2012.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra bindur vonir við frumkvæði eftirlitsnefndar með störfum lögreglu, en hún getur hins vegar ekki rannsakað þátt saksóknaranna.
Fyrirhugað er að málið verði tekið upp á fundi stjórnskipunar- og efnahagsnefndar Alþingis á mánudag. Blaðið hefur heimildir fyrir því að Grímur Grímsson, þingmaður Viðreisnar og nefndarmaður, muni ekki sækja fundinn, en hann var samstarfsmaður Jóns Óttars og Guðmundar Hauks hjá embætti sérstaks saksóknara á sínum tíma.
Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag. Einnig má nálgast hana án endurgjalds í Mogganum, nýju appi Morgunblaðsins og mbl.is.