Í dag er spáð minnkandi suðvestanátt, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.
Seinni part dags verður gola eða kaldi. Má búast við skúrum eða éljum allvíða og það verði fremur svalt.
Í kvöld styttir upp vestan til en í nótt er spáð vægu frosti inn til landsins.
Á morgun er spáð suðvestanátt 3-10 m/s, en 8-13 norðvestanlands síðdegis.
Á austanverðu landinu verður léttskýjað en skýjað með köflum á vestanverðu landinu en þar gætu fallið stöku skúrir. Hlýnar aðeins í veðri.
„Á mánudag er útlit fyrir nokkuð stífa suðvestanátt með björtu veðri fyrir norðan og austan, en skýjuðu og úrkomulitlu veðri suðvestanlands. Hiti 7 til 16 stig, hlýjast eystra,“ segir í hugleiðingunum.