„Þetta gæti orðið gríðarlegt högg. Þarna eru um 130 starfsmenn ásamt öllum þeim sem sinna óbeinum störfum í þágu fyrirtækisins og einnig gæti þetta haft áhrif á fjölskyldur þeirra og aðra í samfélaginu. Höggið yrði gríðarlegt ef af rekstrarstöðvun fyrirtækisins yrði og það er allt til þess vinnandi að reyna að sjá til þess að til stöðvunarinnar komi ekki, ef það er hægt með einhverju móti. En við verðum að vega það og meta og sjá hverju fram vindur á næstu dögum og vikum.“
Þetta segir Jens Garðar Helgason, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, í samtali við Morgunblaðið, spurður um hina alvarlegu stöðu sem PCC BakkiSilicon á Húsavík er komið í. Fyrirsjáanlegt er að óbreyttu að rekstur fyrirtækisins stöðvist á næstu vikum sökum þess að verðfall hefur orðið á kísilmálmi sem fyrirtækið flytur út til Evrópu. Á sama tíma er kísiljárn flutt til landsins í stórum stíl frá Kína, en álverin hér á landi nota það í framleiðslu sinni.
Spurður hvernig stjórnvöld geti brugðist við þeirri stöðu sem PCC BakkiSilicon er komið í af framangreindum sökum segir Jens Garðar að samkvæmt þeim upplýsingum sem hann hafi fengið hjá forsvarsmönnum fyrirtækisins komi tollastríð illa við fyrirtækið.
„Í ofanálag er verið að flytja hingað til lands kínverskan kísil sem er seldur undir markaðsverði, að mér skilst, og ég tel að skoða verði vel hvað hægt sé að gera í því máli,“ segir hann.
Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa leitað til fjármála- og efnahagsráðuneytisins vegna þeirrar skökku samkeppnisstöðu sem þeir telja sig vera í og segir Jens Garðar að það sé frumskylda stjórnvalda að hitta fulltrúa samfélagsins í Norðurþingi og fulltrúa fyrirtækisins og greina og meta stöðuna, og reyna að átta sig á hvað hægt sé að gera.
Hann segir erfitt að segja til um á þessum tímapunkti hvort unnt væri að reisa einhverja tollmúra hér á landi til að verjast innflutningi kísiljárns frá Kína.
„En ég held að við verðum að skoða alla þá möguleika sem eru í stöðunni. Það er til mikils að vinna fyrir samfélagið í Norðurþingi,“ segir Jens Garðar.
„Staðan er grafalvarleg og ég hef verið í sambandi við sveitarstjóra og fulltrúa í sveitarstjórninni, einnig við Aðalstein Baldursson formann Framsýnar, til þess að taka stöðuna og átta mig á umfanginu. Ég veit að sveitarfélagið er að vinna að greiningum til að geta teiknað betur upp stöðu mála og við fylgjumst vel með þessu, bæði ég og aðrir þingmenn kjördæmisins,“ segir hann.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.