Átta hlauparar eru enn í brautinni í Bakgarðshlaupinu sem hófst í Öskjuhlíð í gærmorgun og hafa þeir lokið 31 hring. Keppendur hlaupa 6,7 kílómetra hring eins oft og þeir geta og fá klukkutíma að til að klára hringinn hverju sinni.
„Það eru átta hlauparar í brautinni og eru að klára hring númer 31 sem er algjört met í svona almenningskeppni,“ segir Elísabet Margeirsdóttir, hlaupahaldari hjá Náttúruhlaupum.
Elísabet býst við hlaupinu ljúki ekki fyrr en á morgun en 203 hlauparar lögðu af stað klukkan 9 í gærmorgun.
„Í fyrra voru þrír hlauparar enn á ferðinni á sama tímapunkti en nú eru þeir átta. Þetta endaði í 50 hringjum í fyrra og við getum alveg búist við því að þeir verði fleiri nú en þá,“ segir hún.
Hún segir að aðstæður sé fullkomnar í Öskjuhlíðinni er hver hringur byrjar á heila tímanum og þurfa keppendur að vera komnir í ráshólfið og hlaupa af stað þegar bjallan hringir á næsta heila tímanum, annars eru þeir dæmdir úr keppni.
Íslandsmetið í Bakgarðshlaupi er 62 hringir en Þorleifur Þorleifsson setti það í Elliðaárdalnum í október síðastliðnum.