Ein af hinum gömlu og grónu verslunum í miðbænum mun senn hætta starfsemi. Gleraugnasalan hóf starfsemi sína í nóvember 1961 og var þá á Laugavegi 12. Árið 1973 flutti verslunin á Laugaveg 65. Eigendaskipti urðu í júlí 2000 þegar stofnandinn lét af störfum og við tók Rüdiger Seidenfaden sem starfað hefur þar síðan 1981. Eiginkona hans Ingileif Jónsdóttir Seidenfaden starfar einnig í versluninni. Gleraugnasalan mun hætta starfsemi 30. júní og óvíst er hvers konar starfsemi verður í húsinu eftir það.
Rüdiger Þór Seidenfaden ólst upp í Hannover í Þýskalandi. Árið 1979 lauk hann sveinsprófi sem sjóntækjafræðingur og tveimur árum síðar fluttist hann til Íslands og hóf að vinna í Gleraugnasölunni.
„Fólk kemur hingað vegna þess að því líkar þjónustan og við höfum haft traustan hóp viðskiptavina. Nú er ég kominn á aldur, orðinn 68 ára. Ég kom hingað til lands árið 1981 og nú finnst mér þetta orðið gott. Þegar maður er með eigin rekstur þá er ekki mikið um frí,“ segir Rüdiger.
Heilsufar á nokkurn þátt í þessari ákvörðun hans en Rüdiger hefur verið hjartasjúklingur frá árinu 2010. „Það eru hjartasjúkdómar í ætttinni. Pabbi lést tveimur árum áður en ég kom til Íslands, 58 ára, úr hjartasjúkdómi. Ég er sjálfur með kransæðasjúkdóm og hef verið að glíma við hjartsláttartruflanir og fékk bjargráð 2023. Ég finn að ástandið í heiminum hefur mikil áhrif á mig. Þegar mamma dó í Þýskalandi í covid þá fékk ég hjartsláttatruflanir. Þegar maður liggur á sjúkrahúsi þá hugsar maður sinn gang varðandi framtíðina. Fjölskylda mín er númer eitt, tvö og þrjú.“
Rüdiger kom hingað árið 1981 til að vinna í starfsnámi. „Fyrir tilviljun sá ég auglýsingu frá Íslandi og þegar ég var búinn að vinna í versluninni í ár var ég spurður hvort ég vildi framlengja. Ég gerði það og kynntist konunni minni, sem var verslunarstjóri í búðinni. Það var ævintýri líkast að hitta stóru ástina mína.“
Hann segist ekki vera á leið aftur til Þýskalands. „Undanfarið hafa viðskiptavinir komið og spurt: Ertu að fara að flytja heim? Svarið við því er: Ég kom hingað fyrir 44 árum. Fjölskylda mín er hér. Sem strákur heyrði ég um eldgosin á Íslandi og þau vöktu áhuga minn á landinu. Þegar ég kom hingað varð ég ástfanginn af landinu og þess vegna ílengdist ég hér.“
Hann hafði verið örfá ár á Íslandi þegar hann var kallaður í þýska herinn. „Mamma fékk ábyrgðarbréf þar sem tilkynnt var að ég væri kallaður i herinn. Ég bjó á Íslandi, var nýbúinn að kaupa íbúð, lítið barn komið og ég skuldsettur. Þá mundi ég eftir góðum skólabróður mínum en pabbi hans var háttsettur í hernum. Ég skrifaði honum og spurði hvað ég ætti að gera. Hann sagði mér að skrifa bréf og segja að ég vildi gjarnan sinna herþjónustu en lýsa um leið fjölskylduaðstæðum mínum. Hann sagði mjög líklegt að þeir hefðu ekki áhuga á herþjónustu minni. Ég gerði þetta og var ekki kallaður í herinn. Eitt af því sem heillaði mig við Ísland var einmitt að hér var ekki her.“
Faðir Rüdigers barðist í fjögur ár í Rússlandi í seinni heimsstyrjöldinni. „Fyrir nokkrum árum fékk ég dagbók hans frá Rússlandsárunum og ég gaf út litla bók með dagbókarfærslunum. Ég grét þegar ég las síðustu blaðsíðurnar.
Pabbi smyglaði myndefni frá vígstöðvunum, og það eru til 180 ljósmyndir sem hann tók. Árið 1953 var ákveðið að hann og skólabræður hans úr árgangi 1921 myndu hittast. Af 200 strákum mættu tveir, pabbi og annar.
Í Rússlandi var pabbi í 52 gráðu frosti. Frostið fór aldrei úr líkama hans og hann sótti í hlýtt og gott veður. Hann var mikill Ítalíuunnandi og við vorum hvert einasta ár í þrjár til fimm vikur á Ítalíu.“
Rüdiger hefur stundað fjallgöngur og sinnir skógrækt í Fljótshlíð. Hann hefur gert þrjár ljósmyndabækur með myndum af öllum kirkjum á Íslandi. „Ég ætla að gera eina myndabók í viðbót um íslenskar kirkjur sem standa ekki lengur. Það er mikil vinna og síðastliðin ár hef ég verið að safna myndum í þessa bók. Það eru til myndir eftir erlenda ljósmyndara sem komu hingað til lands en ég hef líka leitað að myndum í útlöndum. Ef ég finn ekki kirkjumynd þá mynda ég staðinn, eins og til dæmis Klausturhóla þar sem kirkjan stendur ekki lengur en grunnurinn sést og kirkjugarðurinn er til.“
Rüdiger mun því von bráðar snúa sér að nýjum verkefnum. Eins og hann segir sjálfur: „Ég geng héðan út sáttur við lífið og sný mér að nýjum ævintýrum.“
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.