Fjórir læknar gagnrýna að íbúar á hjúkrunarheimilinu Sóltúni í Reykjavík muni búa þar áfram og að hjúkrunarheimilið starfi óbreytt á meðan byggingarframkvæmdir fara þar fram. Ákvörðunin sé tekin að íbúunum forspurðum sem fái hvorki grenndarkynningu né andmælarétt.
Þetta kemur fram í grein í Læknablaðinu en höfundar hennar eru læknarnir Einar Stefánsson, Jón Eyjólfur Jónsson, Gestur I. Pálsson og Jón Snædal.
Skrifa þeir að hinar fyrirhuguðu framkvæmdir munu koma til með að standa í rúmlega tvö ár. Heil hæð verði byggð ofan á húsið og tvær álmur lengdar. Þá muni íbúðum fjölga úr 92 í 150-160.
Segir í greininni að sjúkratryggingar geri samning við hjúkrunarheimili um þjónustu og gæði og að Landlæknisembættið og heilbrigðisráðuneytið hafi eftirlitsskyldu með heilbrigðisþjónustu, þar á meðal hjúkrunarheimilum.
„Er hávaði og rask af umfangsmiklum byggingarframkvæmdum skerðing á gæðum þjónustunnar og lífsgæðum vistmanna? Er ásættanlegt að starfrækja hjúkrunarheimili í húsi sem er í byggingu?“ skrifa læknarnir.
Þá vísa þeir til orða fyrrverandi umboðsmanns Alþingis, Skúla Magnússonar, sem benti á, í þættinum Sprengisandi í fyrra, að lagaleg staða og réttindi vistmanna væru óskýr og illa skilgreind í lögum og reglum.
„Ákvörðun um byggingarframkvæmdir í Sóltúnshúsinu er tekin að íbúunum forspurðum. Íbúar hússins fá hvorki grenndarkynningu né andmælarétt. Ljóst má vera að eigendur venjulegs fjölbýlishúss í Reykjavík myndu ekki byggja heila hæð ofan á húsið án þess að kynna það íbúum, varla gera það án þeirra samþykkis og ekki detta í hug að íbúarnir búi í húsinu meðan byggingarframkvæmdir standa. Þetta á við um venjulega heilbrigða borgara. Hafa heilabilaðir og fatlaðir íbúar hjúkrunarheimila engan rétt?“ segir í greininni.
Bent er á að heimilismenn hjúkrunarheimila eigi þar sitt heimili og borgi tekjutengda húsaleigu sem hjá sumum fari yfir 500.000 krónur á mánuði. Allir búi þar til dauðadags og eigi flestir sínar síðustu stundir á hjúkrunarheimilinu.
„Dvalartími fólks á hjúkrunarheimilum er að jafnaði styttri en áætlaður framkvæmdatími í Sóltúni og flestir núverandi íbúar munu eiga sína síðustu daga í faðmi ástvina undir hamraslætti og múrborum.“
„Tvisvar verður hver maður barn“ segir málshátturinn og sú gamla lýsing á heilabilun „að ganga í barndóm“ á vel við. Fólk með langt gengna heilabilun er sumt hvert á svipuðu stigi og eins til tveggja ára barn – getur ekki talað, gengið eða verið sjálfbjarga,“ segir í greininni en læknarnir benda á að tilfinningar séu þó enn til staðar þó að hæfnin til að tjá þær sé takmörkuð.
Fólk með heilabilun geri sér síður grein fyrir ástæðum rasksins og skilji ekki skýringar starfsfólks og aðstandenda. Því séu auknar líkur á hræðslu og kvíða hjá sjúklingum með heilabilun.
Að lokum benda þeir á að margir hafi upplifað andlát náinna ættmenna og vina, sem oft eru fyrirsjáanleg og koma þá hinir nánustu til að kveðja.
„Flestum er þetta heilög stund. Á sjúkrahúsum og hjúkrunarheimilum er leitast við að gera þessar stundir sjúklingsins og aðstandenda sem bestar, heilagar og virðulegar. Múrborar og hamarshögg, sem berast um alla veggi og loft, munu vanhelga þessa heilögu stund.“