Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis fundaði í Smiðju Alþingis í dag. Meðal mála á dagskrá var gagnaleki frá sérstökum saksóknara fyrir rúmum áratug síðan.
Grímur Grímsson, þingmaður Viðreisnar og nefndarmaður, sótti fyrri hluta fundarins en hann var samstarfsmaður Jóns Óttars Ólafssonar og Guðmundar Hauks Gunnarssonar, stofnenda PPP, hjá embætti sérstaks saksóknara á sínum tíma.
Í desember 2011 störfuðu Guðmundur Haukur og Jón Óttar samhliða fyrir embættið og nýstofnað fyrirtæki sitt, að því er virðist að sömu verkefnum.
Eftir að grunur vaknaði um að þeir hefðu stolið gögnum hjá embættinu og rofið þagnarskyldu voru þeir kærðir til ríkissaksóknara en rannsóknin var síðar látin niður falla.
Eins og fyrr segir sótti Grímur fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í dag en þegar kom að því að ræða PPP og gagnalekann vék hann af fundi og lét bóka það sérstaklega, að sögn Vilhjálms Árnasonar, formanns nefndarinnar.
„Það er hans að meta hæfi sitt og hann gerði það fagmannlega,“ segir Vilhjálmur.