„Þetta er verkefni sem Europol stýrir og við höfum tekið þátt í í mörg ár. Framkvæmdin er tvisvar á ári og þá hittast fulltrúar þessara tíu landa og reka sameiginlega stjórnstöð sem stýrir aðgerðum,“ segir Óskar Þór Guðmundsson, rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni á Austurlandi, í samtali við mbl.is.
Tæplega 60 manns eru í haldi lögreglu í löndunum umhverfis Eystrasaltið í kjölfar stóraðgerðar sem sænska lögreglan leiddi og náði til tíu Evrópulanda á Eystrasaltssvæðinu þar sem lögregla hafði afskipti af 20.000 manns auk þess að framkvæma leit í 15.000 farartækjum.
Lagði lögregla hald á fjölda muna, meðal annars vélhjól, bifreiðar, báta og dýr úr. „Aðgerðin tók tvo sólarhringa og var fjöldi manns handtekinn,“ segir Mikael Eliasson, aðgerðastjóri sænsku lögreglunnar, í samtali við sænska ríkisútvarpið SVT en lögregluaðgerðin, sem norsk og íslensk lögregluyfirvöld tóku þátt í auk annarra, var framkvæmd í því augnamiði að koma höggi á skipulagða glæpastarfsemi og leggja meðal annars hald á smyglvarning.
Segir Óskar skipulagða glæpahópa fara yfir landamæri á hverjum degi og verða æ skæðari. „Þetta hefur verið vaxandi vandamál í mörg ár, þetta eru hópar sem koma og stoppa stutt við í löndunum, þeir koma, ræna og rupla og fara, flytja með sér þýfi og fjármuni,“ heldur rannsóknarlögreglumaðurinn áfram og er spurður út í stöðuna á Íslandi, til dæmis hvort ferjan Norræna sé mikið nýtt til illra verka.
„Auðvitað nota þessir brotahópar hana sem ferðaleið eins og margt annað og það er þess vegna sem við tökum þátt í þessu verkefni fyrir hönd Íslands, en auðvitað í góðu samstarfi við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og í raun á öllu landinu,“ svarar Óskar.
Segir hann skipulagða glæpastarfsemi sífellt færast í aukana og verða æ skipulagðari. „Það er margt til vinnandi við að gera þessum hópum eins erfitt fyrir og hugsast getur og ef við vinnum öll saman, löndin hérna í kring, þá náum við betri árangri.
Hvað með flutning á þýfi frá Íslandi, er verið að flytja það í gámum, sem skráðir eru tómir, frá landinu eins og talað var um fyrir nokkrum árum eða fer þetta með ferjunni?
„Það er alls konar,“ svarar Óskar, „við höfum ekki orðið mikið vör við að verið sé að taka þýfi með í ferjuna, en það er eitthvað um að þar sé verið að taka þýfi og fjármuni. Á Keflavíkurflugvelli hafa mun meiri fjármunir verið haldlagðir síðustu tvö ár en áður.“
Aðspurður segir Óskar lögreglu hafa haft meira auga með þýfisflutningi úr landi með Norrænu undanfarin tvö ár og sé ekki síður þörf á því en eftirliti með komufarþegum. „Það eru ekkert færri mál sem koma upp þar en í komunni,“ segir Óskar Þór Guðmundsson rannsóknarlögreglumaður að lokum.
Eliasson hjá sænsku lögreglunni segir SVT frá stórfelldum þjófnaði þar í landi, meðal annars á landbúnaðarvélum. „Við beindum athygli okkar fyrst og fremst að hafnarsvæðum í þessari aðgerð en einnig öðrum stöðum, svo sem landamærunum. „Í heildina má segja að við höfum aukið nærveru okkar til muna með aðgerðinni,“ segir sænski aðgerðastjórinn um þessa samstarfsaðgerð sem leiddi til tæplega 60 handtaka auk haldlagningar fjölda stolinna muna.