„Staðan var verri en við bjuggumst við“

Video Player is loading.
Current Time 0:00
Duration 0:00
Loaded: 0%
Stream Type LIVE
Remaining Time 0:00
 
1x
  • Chapters
  • descriptions off, selected
  • subtitles off, selected
    • Quality

    Þegar sjálf­stæðis­menn tóku við stjórn Árborg­ar árið 2022 varð fljótt ljóst að fjár­hags­staða sveit­ar­fé­lags­ins var verri en þeir hefðu gert ráð fyr­ir. Ráðist var í mikl­ar hagræðing­araðgerðir og nú skil­ar sveit­ar­fé­lagið ein­um sín­um besta árs­reikn­ingi frá upp­hafi.

    Þetta kem­ur fram í nýj­asta þætti Dag­mála þar sem Bragi Bjarna­son, bæj­ar­stjóri Árborg­ar og odd­viti sjálf­stæðismanna, fer yfir viðsnún­ing sveit­ar­fé­lags­ins og póli­tík­ina í Árborg.

    Á síðasta kjör­tíma­bili und­ir stjórn Miðflokks, Fram­sókn­ar, Sam­fylk­ing­ar og Áfram Árborg­ar 2018-2022 juk­ust skuld­ir Árborg­ar veru­lega og í síðustu sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­um var sá meiri­hluti felld­ur. Við tók hreinn meiri­hluti sjálf­stæðismanna.

    Stór hluti lána fór í dag­leg­an rekst­ur

    Bragi seg­ir að í kosn­inga­bar­átt­unni 2022 hafi vissu­lega verið bundið von­ir við að ná tök­um á rekstr­in­um á kom­andi kjör­tíma­bili, en þegar í meiri­hlut­ann var komið varð ljóst að staðan var verri en mönn­um hafði grunað.

    „Það kem­ur svo kannski í ljós þegar við för­um að vinna og rýna og ná í gögn­in öll­söm­ul til að vinna úr stöðunni, að staðan var verri en við bjugg­umst við. Á ákveðnum tíma­punkti sá maður verk­efnið og sagði: „Þetta mun taka lengri tíma og við verðum að vinna plön út frá“. En það má segja að það er þakk­arvert til allra sem hafa komið að, að þetta hef­ur gengið mun bet­ur en við bjugg­umst við,“ seg­ir Bragi.

    Skulda­söfn­un sveit­ar­fé­lags­ins var hröð og mik­il á ár­un­um 2020-2023. Bragi seg­ir að hluti af þess­ari skulda­söfn­un sem átti sér stað und­ir stjórn fyrri meiri­hluta hafi vissu­lega farið í fjár­fest­ing­ar en einnig hafi mikið farið í dag­leg­an rekst­ur sveit­ar­fé­lags­ins.

    „Stór hluti af þeim lán­um sem við [sveit­ar­fé­lagið] vor­um að taka á hverju ári var að fara í rekst­ur­inn, sem er eng­an veg­inn það sem hann á að gera,“ seg­ir Bragi.

    Skuldaviðmiðið lækkað veru­lega

    Hann seg­ir að lausa­fjárstaða sveit­ar­fé­lags­ins hafi verið al­var­leg og þegar verst á lét var skuldaviðmið sveit­ar­fé­lags­ins að nálg­ast 157% árið 2022 „og hefði farið hærra ef við hefðum ekki gripið inn í það strax miðað við áætlan­irn­ar á þeim tíma þegar við sáum hver staðan var.“

    Hvert er skuldaviðmiðið í dag?

    „Við erum kom­in í 107,6%, eða rétt tæp 108%, sem er nátt­úru­lega mjög góð staða að vera í núna – samt búin að vera í gríðarleg­um vexti á und­an­förn­um árum. Sveit­ar­fé­lagið Árborg hef­ur vaxið mjög hratt á und­an­förn­um árum, mikið af íbúðum byggðar sem er já­kvætt. Við vilj­um taka taka vel á móti íbú­um, en við vilj­um líka að íbú­arn­ir sem búa hjá okk­ur njóti áfram þeirr­ar þjón­ustu og þeir fái ekki höggið – sem þeir hafa sann­ar­lega fengið á þess­um árum því miður,“ seg­ir Bragi.

    Eins og fjallað hef­ur verið um þá var árs­reikn­ing­ur Árborg­ar fyr­ir árið 2024 kynnt­ur und­ir lok síðasta mánaðar og rekstr­arniðurstaða A- og B-hluta var já­kvæð um 3.243 millj­ón­ir króna.

    Smelltu á hlekk­inn hér að neðan til að nálg­ast viðtalið við Braga Bjarna­son í heild sinni.

    Bragi ræddi þann mikla viðsnúning sem hefur orðið á rekstri …
    Bragi ræddi þann mikla viðsnún­ing sem hef­ur orðið á rekstri Árborg­ar í nýj­asta þætti Dag­mála. Sam­sett mynd
    mbl.is
    Fleira áhugavert
    Fleira áhugavert