Bjarni Hjaltested Þórarinsson, myndlistarmaður og sjónháttafræðingur, er látinn, 78 ára að aldri.
Bjarni fæddist í Reykjavík 1. mars 1947 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Anna Lísa Hjaltested túlkur og Þórarinn B. Pétursson vélstjóri. Eftirlifandi systur Bjarna eru Guðrún Ágústa, f. 1952, og Stefanía, f. 1956.
Bjarni útskrifaðist frá nýlistadeild Magnúsar Pálssonar við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og var ásamt nokkrum öðrum stofnandi Gallerísins Suðurgötu 7 og tímaritsins Svarts á hvítu á áttunda áratug síðustu aldar.
Hann var einn af stofnendum Nýlistasafnsins. Bjarni var frumkvöðull og hugmyndafræðingur eftirfarandi fyrirtækja og menntastofnana: Vísiakademíu, Ísvís, Sjóntungu, Húndælu, Faxdælu, Evu Sönsjæn co/π Faxsjón lælu kvikmyndasamsteypu, Júnæt 2000 og The International United World University.
Árið 1988 uppgötvaði Bjarni nýtt hugtak, „sjónhátt“, sem reyndist honum afar notadrjúgt. Í framhaldinu uppgötvaði hann hverja nýgreinina af annarri sem hann leitaðist við að þróa.
Starfaði hann sem myndlistarmaður, skáld, höfundur kvikmyndahandrita og sjónháttafræðingur. Hann kallaði sig líka yrkitekt, benduheimspeking, vísíótekt og sjáningafrumkvöðul, svo vitnað sé til orða góðs vinar hans, Guðmundar Odds Magnússonar, Godds, fv. prófessors við Listaháskólann.
Eftir hann liggja handrit að nokkrum ritröðum, skáldsögum og ljóðabókum. Má þar nefna ritraðirnar Víslendingabók, Faxdælu og Heimsspringlu. Ljóðabækurnar eru „Kokka byrja Kvæsa“ og „Kokka Kyrja Kvæsa“.
Síðan er það Vísindaskáldsagan Gestabók Co/πNikks - Led Leppelín förin sem einnig er til í kvikmyndahandriti sem leikin kvikmynd í fullri lengd undir nafninu Gestaboð Co/πNikks – Led Leppelín förin. Sú kvikmynd er í vinnslu og hafa nokkur atriði þegar verið kvikmynduð af Kára Schram kvikmyndaleikstjóra og Guðmundi Bjartmarssyni kvikmyndatökumanni.
Bjarni var frumkvöðull „Sjónþings“ sem gætir víðar í íslensku menningarsamfélagi, líkt og t.d. sjónþingin sem haldin voru í menningarmiðstöðinni Gerðubergi fyrir nokkrum árum.
Bjarni eignaðist tvö börn, þau Hildi og Gunnar Þór.