Hjörtur Torfason, fyrrverandi hæstaréttardómari, er látinn, 89 ára að aldri.
Hjörtur fæddist á Ísafirði 19. september 1935. Foreldrar hans voru Torfi Hjartarson, sýslumaður og bæjarfógeti á Ísafirði og síðar tollstjóri í Reykjavík og sáttasemjari ríkisins, og Anna Jónsdóttir, húsfreyja á Ísafirði og í Reykjavík. Systkini Hjartar eru þau Ragnheiður, fyrrverandi rektor Menntaskólans í Reykjavík, fædd 1937 og dáin 2025, Sigrún, skrifstofumaður, fædd 1938 og dáin 1992 og Helga Sóley, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir, fædd 1951.
Hjörtur varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1954 og lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1960. Hann var við framhaldsnám við Toronto-háskóla í Kanada frá 1961 til 1963.
Eftirlifandi eiginkona Hjartar er Nanna Þorláksdóttir, fyrrverandi hjúkrunarritari, fædd 1935. Þau kynntust í Menntaskólanum í Reykjavík og áttu samleið í 70 ár. Þau gengu í hjónaband árið 1958. Börn Hjartar og Nönnu eru þau Torfi, fæddur 1961, Logi, fæddur 1962 og Margrét Helga, fædd 1968.
Hjörtur starfaði við lögmennsku nær óslitið frá 1960 til 1990. Það ár var hann skipaður dómari við Hæstarétt Íslands en hafði áður verið settur dómari um nokkurra mánaða skeið árið 1988. Hjörtur lét af störfum sem hæstaréttardómari vegna aldurs árið 2001. Eftir að hann lét af störfum sem dómari starfaði hann áfram við lögfræðiráðgjöf, einkum varðandi samningagerð fyrir Landsvirkjun. Þá sinnti Hjörtur ýmsum félags- og trúnaðarstörfum, til að mynda í yfirkjörstjórn Reykjavíkur um áratugaskeið, í stjórn Lögmannafélags Íslands og sem fastafulltrúi Íslands í Feneyjanefnd Evrópuráðsins.