„Við getum ekki útilokað þann möguleika,“ segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur spurður hvort möguleiki sé á kvikuhreyfingum á einhverju dýpi á Tjörnesbeltinu nærri Grímsey.
Stór jarðskjálfti reið yfir austan við Grímsey upp úr klukkan fjögur í nótt. Mældist skjálftinn 4,7 að stærð en í kjölfar hans urðu nokkrir eftirskjálftar, allt að 3,5 að stærð.
Skjálftinn fannst að sögn víða í byggð á Norðurlandi.
Þorvaldur segir Tjörnesbrotabeltið ekki svo frábrugðið Reykjanesbeltinu. Hvort tveggja séu þau lek brotabelti og segir skjálftar myndist við brot á skorpu sem þýði að þá séu hreyfingar í skorpunni. Það séu í grunninn þau öfl sem séu að toga landið í sundur sem stýri því öllu saman.
„Það er ekki bara lárétt hreyfing í öfuga átt sitt hvorum megin við brotið heldur er líka smá gliðnun tengd þessu af því að legan á brotabeltinu er undir horni miðað við rekstefnuna.
Þá rennur þetta samhliða hvort öðru en togast líka aðeins í sundur. Þetta gerist á Reykjanesinu og þetta gerist líka á Tjörnesbrotabeltinu.
Við þessar aðstæður getur kvika alltaf farið á hreyfingu því þá reynir hún að fylla inn í þær sprungur og göt sem hafa opnast. Þannig að við getum aldrei útilokað kvikuhreyfingarnar.“
Þegar skjálftahrinur færa sig til í rúmi segir Þorvaldur eina mögulega túlkun að það sé vegna þess að kvika sé á hreyfingu. Önnur möguleg túlkun er að sprungan sé einfaldlega að opnast í lárétta átt og síðan komi kvika á eftir.
„Auðvitað gerist hvort tveggja og að greina þarna á milli getur stundum verið allt annað en auðvelt.
Það þarf að skoða meira en bara jarðskjálftana. Þeir einir gefa þér ekki svar, það þarf að skoða fleiri þætti en þeir eru þáttur við að finna lausnina.“