Greiddu þrotabúinu 5,3 milljarða eftir sölu til Alfa

Þrotabú athafnarmannsins Karls Wernerssonar fékk 5,3 milljarða í desember eftir …
Þrotabú athafnarmannsins Karls Wernerssonar fékk 5,3 milljarða í desember eftir að sonur Karls hafði verið dæmdur til að greiða því 2,6 milljarða auk vaxta á síðasta ári. Var Jón Hilmar þá eigandi Lyfja og heilsu, sem var meðal eigna sem Karl hafði afsalað til sonar síns. Ljósmynd/Jim Smart

Þrota­bú at­hafn­ar­manns­ins Karls Em­ils Werners­son fékk greiðslu upp á 5,3 millj­arða króna 17. des­em­ber í fyrra í kjöl­far dóma þar sem Jóni Hilm­ari Karls­syni, syni Karls Em­ils, var gert að greiða 2,6 millj­arða auk vaxta eft­ir að hafa tekið við Lyfj­um og heilsu frá föður sín­um fyr­ir óhæfi­lega lágt verð.

Sex dög­um síðar var til­kynnt um að sjóður­inn AF2, sjóður í rekstri Alfa fram­taks, hefði eign­ast 100% í Lyfj­um og heilsu.

Þetta er meðal þess sem má lesa úr ákæru héraðssak­sókn­ara yfir Karli Emil, Jóni Hilm­ari og Gyðu Hjart­ar­dótt­ur, eig­in­konu Karls Em­ils, vegna skila­svika og pen­ingaþvætt­is í tengsl­um við þrota­bú hans.

Er Karl Emil ákærður fyr­ir skila­svik í tengsl­um við að hafa komið dýr­mæt­um eign­um und­an skipta­stjóra þrota­bús­ins. Á meðal eigna sem um ræðir eru lista­verk, fast­eign­ir og fé­lög skráð er­lend­is. Gerði hann það með því að af­sala sér fé­lag­inu Toska ehf. til Jón Hilm­ars, en Toska var eig­andi fé­lag­anna Faxi og Fax­ar sem skráð voru fyr­ir ýms­um eign­um hans. Í sam­stæðunni var auk þess eign­ar­hlut­ur í Lyfj­um og heilsu.

Kem­ur fram í ákær­unni að ekk­ert hafi verið greitt fyr­ir af­salið á Toska, en að Karl Emil og Jón Hilm­ar hafi sagt að greiðsla hafi átt sér stað upp á 1,1 millj­ón. Er í ákær­unni mót­mælt því að það sé greiðsla fyr­ir fé­lagið, en sagt að jafn­vel þótt litið verði svo á að það sé greiðsla, þá sé það óhæfi­lega lágt verð.

Var enda ráðstöf­unni rift fyr­ir dóm­stól­um og Jón Hilm­ari gert að greiða þrota­bú­inu 2,65 millj­arða ásamt drátt­ar­vöxt­um, sem í des­em­ber í fyrra skiluðu sér með fyrr­nefndri 5,3 millj­arða greiðslu til þrota­bús­ins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert