Þrotabú athafnarmannsins Karls Emils Wernersson fékk greiðslu upp á 5,3 milljarða króna 17. desember í fyrra í kjölfar dóma þar sem Jóni Hilmari Karlssyni, syni Karls Emils, var gert að greiða 2,6 milljarða auk vaxta eftir að hafa tekið við Lyfjum og heilsu frá föður sínum fyrir óhæfilega lágt verð.
Sex dögum síðar var tilkynnt um að sjóðurinn AF2, sjóður í rekstri Alfa framtaks, hefði eignast 100% í Lyfjum og heilsu.
Þetta er meðal þess sem má lesa úr ákæru héraðssaksóknara yfir Karli Emil, Jóni Hilmari og Gyðu Hjartardóttur, eiginkonu Karls Emils, vegna skilasvika og peningaþvættis í tengslum við þrotabú hans.
Er Karl Emil ákærður fyrir skilasvik í tengslum við að hafa komið dýrmætum eignum undan skiptastjóra þrotabúsins. Á meðal eigna sem um ræðir eru listaverk, fasteignir og félög skráð erlendis. Gerði hann það með því að afsala sér félaginu Toska ehf. til Jón Hilmars, en Toska var eigandi félaganna Faxi og Faxar sem skráð voru fyrir ýmsum eignum hans. Í samstæðunni var auk þess eignarhlutur í Lyfjum og heilsu.
Kemur fram í ákærunni að ekkert hafi verið greitt fyrir afsalið á Toska, en að Karl Emil og Jón Hilmar hafi sagt að greiðsla hafi átt sér stað upp á 1,1 milljón. Er í ákærunni mótmælt því að það sé greiðsla fyrir félagið, en sagt að jafnvel þótt litið verði svo á að það sé greiðsla, þá sé það óhæfilega lágt verð.
Var enda ráðstöfunni rift fyrir dómstólum og Jón Hilmari gert að greiða þrotabúinu 2,65 milljarða ásamt dráttarvöxtum, sem í desember í fyrra skiluðu sér með fyrrnefndri 5,3 milljarða greiðslu til þrotabúsins.