Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra sendi í febrúar inn skriflega greinargerð til Alþjóðadómstólsins í Haag í máli varðandi Gasasvæðið, en það er í fyrsta sinn sem Ísland stendur eitt að slíkri greinargerð til dómstólsins.
Morgunblaðið hefur heimildir fyrir því að ráðherra hafi ekki gert grein fyrir því á fundi með utanríkismálanefnd Alþingis fyrir fram, líkt og skylt er.
Alls sendu 45 ríki og alþjóðastofnanir inn greinargerð til dómstólsins, en í fyrri viku fór svo fram munnlegur málflutningur. Um sama leyti voru skriflegar greinargerðir, sem sendar höfðu verið inn vegna málsins, opinberaðar á vef hans.
Í greinargerð Íslands, sem Kristján Andri Stefánsson sendiherra afhenti, eru skyldur Ísraels sem hernámsaðila að mannúðarrétti áréttaðar, ásamt ábyrgð Ísraels á að tryggja að stofnanir Sameinuðu þjóðanna geti sinnt hlutverki sínu, þar á meðal Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNRWA), sem gagnrýnd hefur verið fyrir að hafa verið skjól og fjármögnunarleið fyrir hryðjuverkamenn Hamas.
Eftir því sem næst verður komist féllst utanríkisráðherra á það á fundi með utanríkismálanefnd á föstudag að réttara hefði verið að kynna fyrir nefndinni áform um sameiginlega yfirlýsingu utanríkisráðherra Íslands, Írlands, Lúxemborgar, Noregs, Slóveníu og Spánar gegn Ísrael áður en hún var gefin út í liðinni viku, en með því bætist Ísland í hóp þeirra Evrópuríkja sem helst draga taum Hamas í stríðinu.
Greinargerðin til alþjóðadómstólsins virðist hins vegar ekki heldur hafa verið nefnd fyrr en þá, sama dag og fréttatilkynning var gefin út og viku eftir að greinargerðirnar voru birtar.
Nefndarmaður, sem blaðið ræddi við, kvað ráðherra enn vera „að finna taktinn“ í samráði við utanríkismálanefnd, en hann vildi ekki frekar en aðrir tjá sig nánar um hvað komið hefði fram í máli ráðherrans, enda fundir nefndarinnar bundnir trúnaði.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.