Flestir Íslendingar telja líklegt að Ísland muni lenda í 16.-20. sæti í Eurovision, samkvæmt nýrri könnun Maskínu. Fáir eru vongóðir um að VÆB beri sigur úr býtum fyrir hönd Íslands. Það eru svipaðar niðurstöður og síðustu ár. Mun meiri bjartsýni var hjá landanum árið 2021 þegar Daði og gagnamagnið fluttu lagið 10 years.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri könnun Maskínu. Þar voru Íslendingar á öllum aldri spurðir að því í hvaða sæti þeir teldu framlag Íslands lenda í Eurovision í ár.
Líkt og alþjóð veit er VÆB framlag Íslendinga í ár með lag sitt RÓA. VÆB-bræðurnir fluttu lag sitt á dómararennsli í Basel í gær við góðar undirtektir. Veðbankar voru hrifnir af flutningi VÆB og eru þeir ásamt framlagi Slóveníu og Aserbaídsjan í baráttu um að komast í úrslitin á laugardaginn.
Svarendur voru 1.765 talsins og spáðu flestir að Ísland myndi lenda fyrir miðju eða í 16. - 20. sæti.
8% svarenda telja að Ísland muni lenda í 11. - 15. sæti og sömuleiðis er svipaður fjöldi sem telur að VÆB verði í 6. - 10. sæti. Aðeins 4,4% telja að Ísland geti borið sigur úr býtum í keppninni í ár.
16,8% svarenda telja að Ísland muni lenda í 30. - 40. sæti, en það eru allra neðstu sætin. 13,8% telja VÆB enda í 31. - 35. sæti en 14,1% veðja að árangur Íslands skili 26. - 30. sæti. 12,6 % telja svo að árangurinn skili 21. - 25. sæti.
VÆB mun opna keppnina í ár með stuðlaginu RÓA og hefst útsending klukkan 19 á RÚV.