Jón Óttar Ólafsson, annar stofnenda ráðgjafafyrirtækisins PPP, fullyrðir að Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari hafi verið búinn að ákveða að kæra hann og kollega hans þegar þeir undirrituðu verktakasamning um sérfræðistörf á sviði rannsókna hjá embætti sérstaks saksóknara árið 2012.
Hann heldur því jafnframt fram að Ólafur hafi sjálfur lekið gögnum til fjölmiðla nýlega sem sýni fram á meintan gagnastuld af hálfu eigenda PPP úr kerfum embættis sérstaks saksóknara.
Það hafi hann gert eftir að Jón Óttar kærði hann til nefndar um eftirlit með störfum lögreglu í desember síðastliðnum vegna rannsóknar á þætti Jóns Óttars í Namibíumálinu svokallaða. Kæran er nú komin til ríkissaksóknara.
Þetta kemur fram í viðtali við Jón Óttar hjá Frosta Logasyni í Brotkasti.
Hann segir þá Guðmund hafa verið leidda í gildru á sínum tíma af Ólafi, sem þá var í embætti sérstaks saksóknara, en þeir Jón Óttar og Guðmundur voru kærðir fyrir þagnarskyldubrot á sínum tíma vegna gruns um að þeir hefðu tekið gögn frá embættinu og afhent skiptastjóra þrotabús Milestone. Ríkissaksóknari felldi málið hins vegar niður árið 2013 þar sem það þótti ekki líklegt til sakfellingar.
Þeir Jón Óttar og Guðmundur höfðu skömmu fyrir undirritun samningsins látið af störfum hjá embættinu til að stofna PPP, en áttu eftir að ljúka ákveðnum verkefnum. Ólafur hefur sagt að því hafi verið brugðið á það ráð að gera við þá verktakasamning. Á sama tíma störfuðu þeir fyrir skiptastjóra þrotabúa og slitastjórnir banka.
Höfðu þeir víðtækan aðgang að gögnum sem þeir tóku síðan ófrjálsri hendi og nýttu meðal annars við að selja þjónustu PPP. Kastljós ljóstraði upp um umfangsmikinn gagnastuldinn og hefur ríkissaksóknari falið lögreglunni á Suðurlandi málið til rannsóknar.
„Við erum kærðir af því Ólafur fær allt í einu veður af því að lögmenn fara að fetta fingur út í þetta kerfi,“ segir Jón Óttar og vísar þar til þess að starfsmenn embættisins hafi unnið fyrir slitastjórnir á sama tíma.
„Þá er hann allt í einu kominn með ákveðið vandamál og kemur með þennan samning og lætur okkur skrifa undir,“ segir hann jafnframt.
Jón Óttar segir Ólaf hafa spurt hvort þeim væri sama þó að samningurinn væri dagsettur aftur í tímann og samþykktu þeir það. Jón Óttar talar um 1. janúar, en samningurinn, sem mbl.is hefur undir höndum, er dagsettur 2. janúar.
Hann segir Ólaf hafa grínast með að nú gerðu þeir eins og „bankakarlarnir“ væru að falsa dagsetningar.
„Nokkrum vikum seinna, seinni partinn í maí, var allt lok, lok og læs hjá héraðssaksóknara og komið í alla fjölmiðla að við höfum verið kærðir fyrir gagnaþjófnað,“ segir Jón Óttar í viðtalinu.
Þeir hafi svo verið yfirheyrðir í júlí af Sigríði J. Friðjónsdóttur ríkissaksóknara og lögreglumanni frá Suðurnesjum.
Hann segir Sigríði hafa lagt fyrir framan hann umræddan samning og sagt að hann væri grunngagnið með kærunni frá embætti sérstaks saksóknara. Þeir hafi því verið leiddir í gildru.
„Hann er að búa til gagn af því hann segir: Sjáðu Sigríður hvað þeir eru miklir glæpamenn, hérna segja þeir mér frá slitastjórnarvinnunni, en ekki Milestone-vinnunni. Það er þá sönnun þess að hún hafi verið án hans vitundar og vilja.“
Jón Óttar segist hafa sagt Sigríði að auðvelt væri að sanna að samningurinn væri dagsettur aftur í tímann því í honum kemur fram að þeir hafi verið byrjaðir að vinna fyrir slitastjórn Glitnis. Sú vinna hófst hins vegar ekki fyrr en í lok febrúar.
Sjálfur viðurkenndi Ólafur það við skýrslutöku vegna rannsóknar á þagnarskyldubrotunum árið 2012 að samningurinn hefði í raun verið gerður í febrúar. Sagði hann ástæðu þess að hann var gerður svo seint vera miklar starfsannir.
Jón Óttar segir að málið hafi verið fellt niður á sínum tíma því þeir hafi getað sýnt fram á tölvupóstsamskipti sem staðfestu að þeir hafi haft heimild til afhenda skiptastjóra Milestone gögnin.
Hann segir engan gagnaleka hafa átt sér frá þeim úr kerfum sérstaks saksóknara, gögnin hafi verið á tölvum þeirra vegna vinnu fyrir embættið á sínum tíma.