Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi 27 ára karlmann, Aðalstein Unnarsson, til sjö ára fangelsisvistar fyrir tvær tilraunir til manndráps. Dómurinn féll 7. maí.
Árásirnar voru með fjögurra ára millibili. Í annað skiptið stakk Aðalsteinn mann í kviðinn þannig að 10 cm langur þarmur lá út úr sárinu. Í hitt skiptið veittist hann að manni í heimahúsi og stakk ítrekað í höfuð, brjóstkassa og útlimi.
Fyrra atvikið má rekja til átaka sem komu upp nærri hóteli í Mosfellsbæ. Hafði hann þá mælt sér mót við brotaþola í málinu út af ágreiningi tengdum fíkniefnaviðskiptum. Úr varð að Aðalsteinn stakk manninn tvívegis í kviðinn með fyrrgreindum afleiðingum. Vitni voru að málinu en fram kom í skýrslum lögreglu að augljóslega kæmi vímuefnanotkun að máli.
Bar Aðalsteinn fyrir sig nauðvörn í málinu þar sem brotaþoli hefði komið með hníf á staðinn og hótað að beita honum í átökunum. Dómari féllst ekki á að brotaþoli hefði verið með hníf. Eins bendir dómurinn á það að Aðalsteinn hafi hlaupið á eftir mönnunum eftir að átökum lauk og þar með verði ekki hægt að segja að hann hafi einungis beitt sjálfsvörn í málinu.
Í hinu tilvikinu ber Aðalsteinn við algjöru minnisleysi en það atvik gerðist í desember 2024. Var hann þá staddur í heimahúsi og brotaþoli var að koma inn af svölum þegar Aðalsteinn veittist að honum með hníf. Aðalsteinn er sagður hafa veist að manninum sem hann kallaði vin sinn fyrir dómi, stungið hann ítrekað hvar sem hann gat eða þar til hann varð sjálfur örmagna af átökunum. Er brotaþolinn sagður hafa barist fyrir lífi sínu á meðan árásin átti sér stað og að vitni hafi komið honum til bjargar.
„Er það mat dómsins að inngrip síðastgreinds vitnis hafi orðið brotaþola til lífs og að hending ein hafi ráðið því að ekki fór verr,“ segir í dómnum.
Sagðist Aðalsteinn hafa verið í geðrofi þegar hann framkvæmdi verknaðinn en fram kemur að hann hafði setið að drykkju í á annan sólarhring þegar árásin átti sér stað. Matsmaður sagði ekkert benda til geðrofs samkvæmt skilgreiningu.
Mat dómurinn hæfilega refsingu 7 ár. Þá er Aðalsteini gert að greiða fórnarlömbunum 1.250 þúsund krónur og 2,5 milljónir króna.
Þá er honum í heild gert að greiða 9,7 milljónir króna í sakarkostnað í ríkissjóð.