„Við verðum að átta okkur á þeim lífsgæðum og því samkeppnisforskoti sem við í Reykjanesbæ búum við, það er svo sannarlega engin ástæða til að tefla í tvísýnu þessu forskoti á höfuðborgarsvæðið með því að feta í fótspor meirihlutans í Reykjavík. Við eigum ekki að sætta okkur við að vera skuggamynd af Reykjavík – við eigum að vera við sjálf.“
Þetta skrifar Vilhjálmur Árnason, þingmaður og ritari Sjálfstæðisflokks, um nýsamþykkta húsnæðisáætlun meirihlutans í Reykjanesbæ í grein í Víkurfréttum.
Vilhjálmur segir nýsamþykkta húsnæðisáætlun meirihluta Samfylkingar, Framsóknar og Beinnar leiðar í Reykjanesbæ gera ráð fyrir því að 95,4% allra skipulagðra íbúða á árunum 2024–2033 verði í fjölbýlishúsum.
„Ég verð að viðurkenna að þegar ég las þessa áætlun hélt ég í fyrstu að um væri að ræða húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar – ekki Reykjanesbæjar. Hvernig getur svona einhæf uppbygging talist skynsamleg, þegar við viljum skapa fjölbreytt samfélag með raunverulegum valkostum?,“ skrifar Vilhjálmur.
Hann segir Reykjanesbæ þurfa stefnu sem „byggir á fjölbreyttu húsnæði, metnaði í skipulagsmálum og virðingu fyrir samfélaginu okkar.“
Vilhjálmur flutti í Reykjanesbæ ásamt fjölskyldu sinni eftir að hafa þurft að yfirgefa heimili sitt í Grindavík. Hann nefnir að helstu ástæður þess að Reykjanesbær hafi orðið fyrir valinu séu góðir skólar, virkt samfélag, öflug íþróttafélög sem og raunhæft framboð sérbýla á heilbrigðu verði.
Hann segir uppbyggingu í Reykjanesbæ hafa að miklu leyti verið í formi fjölbýlishúsa undanfarin ár og því sé furðulegt, að hans mati, að meirihlutinn hyggist auka hlutfallið enn frekar og hverfa nánast alfarið frá því að byggja sérbýli.
„Stefnan sem meirihlutinn boðar nú virðist ekki byggð á framtíðarsýn – heldur hugmyndafræði sem hentar kannski í þéttingarreitum Reykjavíkur, en á ekkert erindi við ört vaxandi fjölskylduvænt sveitarfélag eins og Reykjanesbæ. Því miður er þetta eitt dæmi af mörgum um það hvernig núverandi meirihluti hefur markvisst reynt að gjörbreyta bæjarsál Reykjanesbæjar,“ skrifar Vilhjálmur.
Hann segir fjölbreytta byggð endurspegla ólíkar þarfir bæjarbúa og þannig sé tryggt að samfélagið þróist á fjölbreyttan og heilbrigðan hátt.
„Enginn dregur í efa að fjölbýli eigi sinn stað í uppbyggingu – en lykilatriðið er jafnvægi. Við þurfum blandaða byggð þar sem fólk hefur raunverulegt val: hvort það vill búa í blokk, raðhúsi, parhúsi eða einbýli,“ skrifar hann.
Hann nefnir að ungt fólk og barnafjölskyldur eigi sér oft þann draum að eignast sérbýli og bætir við að sveitarfélag eins og Reykjanesbær eigi vel að geta tryggt að sá draumur sé raunhæfur.
„Þegar einungis 4,6% íbúða sem byggðar verða næstu árin eiga að vera sérbýli, þá er verið að ýta þessum draumi út fyrir seilingar allra nema þeirra tekjuhæstu.“