„Spáin er afskaplega góð og maður er dálítið hræddur við svona góða spá, þ.e. að hún standi ekki undir væntingum á endanum,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur, en svo virðist sem staða veðurkerfanna sé með allra hagstæðasta móti.
„Við sjáum stundum á vorin og snemmsumars þessi háþrýstisvæði sem beina til okkar lofti úr suðri, lofti sem er hlýtt og með lítilli skýjahulu. Þau fara hérna stundum hjá en staldra ekki við í marga daga eins og spáin er að gefa til kynna núna,“ segir Einar.
Í ljósi þessa er bændum óhætt að undirbúa slátt þar sem hlýjast er, en huga þarf þó að raka. „Til að geta slegið gras þarf líka að vera rekja, en þetta lítur vel út,“ segir Einar.
Gangi spáin eftir segir Einar ljóst að landsmenn geti glaðst næstu daga við útiveru ýmiss konar. Þá segir hann einnig áhugavert að bera saman hitatölur á næstunni.
Veðurhorfur um landið allt eru á besta veg, hlýjast verður á Norður- og Austurlandi ásamt miðhálendinu og inn til landsins. Suðlæg átt er í kortum, víða 3-8 m/s, léttskýjað og hiti 16 til 22 stig. Öðru hverju má gera ráð fyrir suðaustan 8-13 m/s með dálítilli vætu.