Bragi Bjarnason, bæjarstjóri Árborgar og oddviti Sjálfstæðisflokksins, stefnir aftur á framboð í sveitarstjórnarkosningunum sem fara fram eftir ár.
Frá þessu greinir hann í Dagmálum.
Bragi steig sín fyrstu skref í stjórnmálum þegar hann bauð sig fram til oddvita í prófkjöri sjálfstæðismanna í Árborg í byrjun árs 2022. Hann var kjörinn oddviti og leiddi Sjálfstæðisflokkinn til sigurs í sveitarstjórnarkosningum þar sem flokkurinn fékk hreinan meirihluta.
„Þó að ég hafi vitað hvar ég stæði í mörg ár, þá af því maður starfaði inn í embættismannakerfinu hjá sveitarfélaginu þá var maður ekki að hafa sig mikið í frammi. Maður vildi bara vinna með öllum. En ég ákvað að taka þetta skref í pólitíkina og sé ekki eftir því, þetta er búið að vera einstaklega skemmtilegt,“ segir Bragi.
Muntu sækjast eftir því að leiða listann áfram?
„Já, ég mun sækjast eftir því. Það er heiður að hafa fengið að leiða listann þetta kjörtímabil og langar að gera það áfram,“ segir Bragi.
Hann segir mikinn árangur hafa náðst á yfirstandandi kjörtímabili og hann kveðst vilja halda áfram að byggja á þeim árangri næstu fjögur árin.
Sveitarstjórnarkosningar fara fram 16. maí 2026.
Um mitt kjörtímabil tók hann við sem bæjarstjóri Árborgar og vakti atburðarásin í kringum það nokkra athygli.
Fjóla Steindóra Kristinsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, og Bragi höfðu gert samkomulag um að á miðju kjörtímabili myndu Bragi og Fjóla skiptast á embættum 1. júní 2024. Þannig myndi Bragi taka við stöðu bæjarstjóra og Fjóla verða formaður bæjarráðs, en hún var bæjarstjóri fyrstu tvö árin.
Fjóla vildi hins vegar ekki hætta sem bæjarstjóri, gekk úr meirihlutanum og Sjálfstæðisflokkurinn myndaði meirihluta með Áfram Árborg. Er það samstarf búið að ganga mjög vel að sögn Braga.
Smelltu á hlekkinn hér að neðan til að nálgast viðtalið við Braga Bjarnason í heild sinni.