Lögregla var kölluð til vegna líkamsárásar þegar nokkuð stór unglingsstúlknahópur réðst á eina eða tvær stúlkur á sama reki nærri Ásgarði í Garðabæ um kvöldmatarleytið í gær.
Sævar Guðmundsson aðalvarðstjóri lögreglu segir að samkvæmt upphaflegri tilkynningu hafi nokkrar stúlkur ráðist á eina.
Árásin er til umfjöllunar í íbúahópi Garðabæjar á Facebook en þar segir vitni að þolendur hafi verið tvær stúlkur og að gerendur hafi tekið athæfi sitt upp með símum sínum.
„Stelpuhópur var rétt fyrir kl. 19:20 (fyrir aftan Garðaskóla) að lemja og sparka í tvær aðrar stelpur, sem lágu á jörðinni, og voru að taka það upp á video,“ segir í færslunni.
Bæði vitnið í Garðabæjarhópnum og lögregla segja mann hafa komið að, skorist í leikinn og náð að stöðva hópinn og draga í sundur.
Vitnið segir að þá hafi stúlkurnar sem ráðist var á hlaupið í burtu en lögregla að sú sem ráðist var á hafi hlaupið í burtu og leitað skjóls í íþróttamiðstöðinni.
Lögregla hafi reynt að hafa uppi á stúlkunni og meðal annars farið inn í íþróttamiðstöðina. Leitin hafi þó ekki borið árangur. Sævar segir að mögulega hafi hún farið út úr íþróttamiðstöðinni baka til.
Hann segir enga kæru hafa verið lagða fram vegna árásarinnar og að lögregla hafi enn sem komið er enga vissu um hvaða stúlkur áttu í hlut, hvorki gerendur né þolendur.
Þannig hafi lögregla ekki heldur upplýsingar um það hvort einhver hafi slasast í árásinni.
Sævar segir starfsfólk Garðaskóla með málið til einhverrar skoðunar og því megi leiða líkur að því að gerendur og/eða þolendur tengist skólanum með einhverjum hætti.
Segir hann þó að lögreglu vanti frekari upplýsingar um málið og að ná sambandi við fólk sem tengist því.
Spurður hvort árásir sem þessar séu tíðar á höfuðborgarsvæðinu eða í Garðabæ segir Sævar að keimlík mál komi reglulega upp en alls ekki frekar í Garðabæ en öðrum sveitarfélögum.
„Það er alls ekkert eitthvað slæmt ástand í Garðabæ.“