Hópárás í Garðabæ

Lög­regla var kölluð til vegna lík­ams­árás­ar þegar nokkuð stór ung­lings­stúlkna­hóp­ur réðst á eina eða tvær stúlk­ur á sama reki nærri Ásgarði í Garðabæ um kvöld­mat­ar­leytið í gær.

Sæv­ar Guðmunds­son aðal­varðstjóri lög­reglu seg­ir að sam­kvæmt upp­haf­legri til­kynn­ingu hafi nokkr­ar stúlk­ur ráðist á eina.

Árás­in er til um­fjöll­un­ar í íbúa­hópi Garðabæj­ar á Face­book en þar seg­ir vitni að þolend­ur hafi verið tvær stúlk­ur og að gerend­ur hafi tekið at­hæfi sitt upp með sím­um sín­um.

„Stelpu­hóp­ur var rétt fyr­ir kl. 19:20 (fyr­ir aft­an Garðaskóla) að lemja og sparka í tvær aðrar stelp­ur, sem lágu á jörðinni, og voru að taka það upp á vi­deo,“ seg­ir í færsl­unni.

Bæði vitnið í Garðabæj­ar­hópn­um og lög­regla segja mann hafa komið að, skorist í leik­inn og náð að stöðva hóp­inn og draga í sund­ur.

Eng­in kæra verið lögð fram

Vitnið seg­ir að þá hafi stúlk­urn­ar sem ráðist var á hlaupið í burtu en lög­regla að sú sem ráðist var á hafi hlaupið í burtu og leitað skjóls í íþróttamiðstöðinni.

Lög­regla hafi reynt að hafa uppi á stúlk­unni og meðal ann­ars farið inn í íþróttamiðstöðina. Leit­in hafi þó ekki borið ár­ang­ur. Sæv­ar seg­ir að mögu­lega hafi hún farið út úr íþróttamiðstöðinni baka til.

Hann seg­ir enga kæru hafa verið lagða fram vegna árás­ar­inn­ar og að lög­regla hafi enn sem komið er enga vissu um hvaða stúlk­ur áttu í hlut, hvorki gerend­ur né þolend­ur.

Þannig hafi lög­regla ekki held­ur upp­lýs­ing­ar um það hvort ein­hver hafi slasast í árás­inni.

Teng­ing við Garðaskóla lík­leg

Sæv­ar seg­ir starfs­fólk Garðaskóla með málið til ein­hverr­ar skoðunar og því megi leiða lík­ur að því að gerend­ur og/​​eða þolend­ur teng­ist skól­an­um með ein­hverj­um hætti.

Seg­ir hann þó að lög­reglu vanti frek­ari upp­lýs­ing­ar um málið og að ná sam­bandi við fólk sem teng­ist því.

Spurður hvort árás­ir sem þess­ar séu tíðar á höfuðborg­ar­svæðinu eða í Garðabæ seg­ir Sæv­ar að keim­lík mál komi reglu­lega upp en alls ekki frek­ar í Garðabæ en öðrum sveit­ar­fé­lög­um.

„Það er alls ekk­ert eitt­hvað slæmt ástand í Garðabæ.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert