Lögreglan hefur í morgun verið með aðgerðir á Suðurlandsvegi rétt neðan við Lögbergsbrekku þar sem stöðvaðar hafa verið rútur, vörubílar og atvinnutengd ökutæki.
Lögreglan á Vesturlandi stýrir aðgerðunum og nýtur hún aðstoðar frá lögregluembættunum á Suðurlandi og á höfuðborgarsvæðinu að sögn Jóns S. Ólafssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Vesturlandi. Hann segir að þetta sé í fyrsta sinn sem þetta er gert með þessum hætti.
„Við erum taka niður af ökuritum, kanna ástand farartækjanna, athuga með flutning á hættulegum farmi og kanna rekstrarleyfi,“ segir Jón í samtali við mbl.is en lögreglan hefur eftirlitsskyldu með öryggisþáttum þessara ökutækja og að allir hafi tilskilinn leyfi til aksturs á þeim.
„Þetta er stórt verkefni og við erum með mannskap sem tekur þátt í þessum aðgerðum,“ segir Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.