Sanna Magdalena Mörtudóttir oddviti Sósíalistaflokksins í Reykjavík er áfram vinsælasti borgarfulltrúinn en fjórðungur borgarbúa telur hana hafa staðið sig best allra borgarfulltrúa samkvæmt borgarvita Maskínu í apríl. Sanna mælist með óbreytt hlutfall frá síðustu mælingu sem fram fór í nóvember 2024.
Nær fimmtungur, eða 19%, telur Hildi Björnsdóttur oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík hafa staðið sig best. Ánægja með Hildi fer vaxandi frá síðustu mælingu en þá töldu 14% hana hafa staðið sig best.
Sanna og Hildur eru áberandi vinsælastar meðal borgarfulltrúa en sá þriðji vinsælasti er Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarmanna með 10%. Vinsældir hans fara jafnframt vaxandi frá síðustu mælingu er 6% töldu hann hafa staðið sig best.
8% telja Heiðu Björgu Hilmisdóttur oddvita Samfylkingar og borgarstjóra hafa staðið sig best. Það er nokkur aukning frá síðustu mælingu þegar 2% töldu hana hafa staðið sig best, en hún á langt í land með að njóta sömu hylli og forveri hennar, Dagur B. Eggertsson. Í síðustu mælingu, sem fram fór skömmu áður en hann hvarf til þingstarfa, þótti 21% borgarbúa hann hafa staðið sig best.
Af þeim tíu borgarfulltrúum sem þykja standa sig best er sjálfstæðismaðurinn Kjartan Magnússon næstur með 6% en hann mælist vinsælastur borgarfulltrúa sem ekki er oddviti.
Þá mælast Dóra Björt Guðjónsdóttir pírati, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Viðreisn og Alexandra Briem pírati allar með 5% og loks Ragnhildur Alda M. Vilhjálmsdóttir Sjálfstæðisflokki með 3% og Líf Magneudóttir með 2%.
Aðrir komust ekki á blað en borgarfulltrúar Reykjavíkur telja alls 23.