Farþegar sem fóru með flugi Play til Malaga á Spáni í fyrradag eru margir hverjir í vandræðum þar sem 17 töskur skiluðu sér ekki.
Vala Valtýsdóttir, einn farþeganna, segir í samtali við mbl.is að hluti fólks hafi til að mynda ekki fengið golfsettin sín.
„Í gær komu fimm töskur af þessum sautján en það vantar enn tólf töskur. Í dag er fimmtudagur en við fórum í loftið á þriðjudaginn. Þetta er alveg skelfilegt. Það voru einhverjir sem voru með lyfin sín í töskunum og þurfa nú að fara til læknis og reyna að fá lyf og sumir þurfa hreinlega að verða sér úti um föt og þurfa að keyra langa leið til þess,“ segir Vala.
Vala er í golfferð á Fair Play á vegum Verdi Travel og segir hún að starfsfólk sé endalaust að reyna að gera eitthvað í málunum en fátt hafi verið um svör hjá Play. Aðrir farþegar voru á vegum annarra ferðaskrifstofa.
„Ég var svo heppin að fá mína tösku en vinafólk mitt, fimm talsins, hafa ekki fengið töskurnar sínar. Sumir fengu hvorki ferðatöskurnar sínar né golfsettin. Mér skilst að einhver hluti farangursins sé í Kaupmannahöfn,“ segir hún.