Rúmlega 45 þúsund einstaklingar fengu ofgreitt frá Tryggingastofnun ríkisins og þurfa að endurgreiða stofnuninni í samræmi við það.
Miðgildi endurgreiðslna sem þessir einstaklingar þurfa að inna af hendi er 114 þúsund krónur.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá TR en endurreikningur vegna lífeyrisgreiðslna hefur nú verið kynntur.
Þar kemur jafnframt fram að 19 þúsund einstaklingar eða 26% þeirra sem fá greiðslur frá stofnuninni eiga inneign. Miðgildi inneigna er 66 þúsund krónur.
Þrátt fyrir að um 66% lífeyrisþega þurfi að endurgreiða stofnuninni nú er hlutfallið lægra en í fyrra þegar hlutfall þeirra sem fengu ofgreitt var 78%.
„Ástæður ofgreiðslna árið 2024 er fyrst og fremst hægt að rekja til fjármagnstekna, en fjármagnstekjur voru mun hærri heldur en viðskiptavinir höfðu áætlað,“ segir í tilkynningu.
„Ofgreiðslur sem leiða til endurgreiðslna myndast vegna mismunar á áætluðum tekjum og rauntekjum sem koma fram í skattframtali fyrir árið 2024,“ segir í tilkynningu
Fram kemur að „viðskiptavinir“ geti andmælt niðurstöðum uppgjörs til og með 31. maí 2025. Það er gert á Mínum síðum TR.