Hilmar Daníel Valgeirsson, eigandi Aðalgötu 6b á Siglufirði, hyggst senda „útkall“ á bæjarbúa í von um að þeir aðstoði hann við að farga um 600 fm húsinu sem skemmdist í óveðri árið 2023.
Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra (HNV) hefur fyrirskipað bænum að farga húsinu á kostnað Hilmars enda þykir húsið ótraust og eignum annarra íbúa stafar hætta af því vegna hættu á því að brak úr húsinu fjúki í vondum veðrum.
Í gær féll úrskurður hjá Úrskurðarstofnun umhverfis- og auðlindamála honum í óhag þar sem hann freistaði þess að fá fyrirskipuninni hnekkt.
Kostnaður við förgun hleypur á mörgum milljónum króna og Hilmar segir gjaldþrot blasa við honum vegna þess. Hann hefur þó ekki lagt árar í bát enn.
„Ég á eitt úrræði eftir,“ segir Hilmar. „Og það er að senda útkall á bæjarbúa um að þeir hjálpi mér við það að rífa húsið,“ segir Hilmar.
Málið er þó ekki svo einfalt að Hilmar geti farið beint í að reyna að hóa saman bæjarbúa. Fyrst þarf hann að fá heimild hjá HNV til að farga húsinu.
„Ég er búinn að vera í samtali við bæjarstjórann (Þóri Hákonarson) og fleiri hjá bænum og það hafa allir sýnt aðstöðu minni samkennd. Þeim sem ég hef talað við líst vel á hugmyndina,“ segir Hilmar.
„Ef heilbrigðiseftirlitið samþykkir umsóknina um förgun þá er planið að gera myndband þar sem ég mun óska eftir aðstoð samfélagsins,“ segir Hilmar.
Hilmar ólst upp í Flórída í Bandaríkjunum og talar litla íslensku. Hann hefur búið á Siglufirði undanfarin ár og á þar marga fjölskyldumeðlimi.
Frá því húsið skemmdist hefur hann búið í bráðabirgðaaðstöðu á verkstæði í eigu föður hans. Hann segist þó í þann mund að flytja í leiguíbúð í eigu vinar hans.
„Ég á enn eftir að hitta þann bæjarbúa sem hefur ekki sýnt aðstöðu minni skilning. Nær allir segja það sama og þeir skilja ekki af hverju Hamfarasjóður hljóp ekki undir bagga. Reglurnar voru þær að hamfarasjóður greiddi áður út bætur ef vindur fór yfir 45 metra á sekúndu en það er ekki lengur svo. Því eru margir sem hafa talað um það að þeir þurfi að huga að sínum málum vegna þessarar atburðarásar,“ segir Hilmar.