Miðbæjarreið Landssambands hestamannafélaga mun að óbreyttu ekki fara fram í ár.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá landssambandinu.
Reykjavíkurborg hyggst innheimta viðburðargjald fyrir viðburðinn og þar sem miðbæjarreiðin er að engu leyti tekjuaflandi fyrir Landssambandið og kostnaðurinn orðinn slíkur sér Landssambandið sér ekki fært að standa undir viðburðinum, að því er fram kemur í tilkynningunni.
Landssambandið kallar á að ákvörðunin verði endurskoðuð og bendir á að miðbæjarreiðin veki alltaf mikla athygli og eftirtekt bæði innanlands og utan. Þá séu fáar höfuðborgir sem státi af jafnmikilli hestamennsku og Reykjavík.
„Það er leitt að viðburður sem hefur það að markmiði að vekja athygli á íslenska hestinum og mikilvægi hans í íslenskri menningu og samfélagi geti ekki farið fram.
Það vekur bæði undrun og vonbrigði að Reykjavíkurborg hafi ákveðið að setja slíkt gjald á viðburðinn og vonumst við auðvitað til að sú ákvörðun verði endurskoðuð.“