Hitinn gæti náð allt að 25 stigum á Egilsstöðum á sunnudaginn en sannkallaðri bongóblíðu er spáð á öllu landinu um helgina með sólskini og háum hitatölum.
Í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands segir að það sé hæð við Færeyjar sem stjórni veðrinu á landinu um þessar mundir. Hæðin og lægðir suður af Hvarfi beini hlýju lofti til landsins.
Hitametið í maí gæti fallið en mesti hiti sem mælst hefur í maímánuði er 25,6 stig á Vopnafirði 26. maí árið 1992. Í gær mældist mest 24,2 stig á Egilsstaðaflugvelli og 23,6 stig á Hallormsstað.
„Það má því vera ljóst að hitinn á landinu núna er með því mesta sem við getum búist við að fá í maí - sannkallaður sumarauki,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.
Klukkan 10 í morgun var hitinn kominn í 21,4 gráður á Möðruvöllum í Hörgárdal og 21,2 stig á Staðarhóli.