Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, var ósátt við ræðu Sigríðar Á. Andersen varðandi skipun hennar í stjórn HMS í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.
Sigríður gagnrýndi Ingu harkalega fyrir skipun hennar í stjórn Húsnæðis og mannvirkjastofnunar ríkisins, sem kynni að fara í bága við jafnréttislög, og hins vegar ákvörðun hennar um aðgerðarleysi gagnvart Tryggingarstofnun ríkisins.
Inga Sæland tók ekki vel í gagnrýni Sigríðar og tók þá sterkt til mála og minnti á að hún hefði leiðrétt skipun í stjórn HMS. Inga Sæland skaut þá fast að Sigríði og fór að rifja upp ráðherratíð hennar.
„Það er í rauninni með hreinum ólíkindum að akkúrat þessi háttvirtur þingmaður, Sigríður Á. Andersen, sem er einn af fáum ráðherrum fyrrverandi ríkisstjórnar Íslands, hrökklaðist úr embætti og þurfti að segja af sér ráðherradómi vegna einstrengingslegra ákvarðanataka, þvert á gildandi lög. Það þurfti Mannréttindadómstól Evrópu [MDE] til að hrekja hana úr embætti vegna þess að svo fast sat hún.”
Sagðist hún horfa í augu Sigríðar með von um það að þær væru í rauninni að gera sitt besta og væru í góðri trú að vinna að hag samfélagsins sem þær voru kjörnar til að gera.
„Ég mun ganga hér fram af heiðarleika og einlægni í mínum störfum hér eftir sem hingað til, hvort heldur það sé í stjórnarandstöðu sem ber pínulítinn annan brag í störfum okkar, heldur en þegar við sitjum í hæstvirtri ríkisstjórn.“