Kona réðst á pizzusendil í miðborginni í gærkvöld. Konan stal síma pizzusendilsins og þegar hann reyndi að hafa uppi á henni réðst konan, sem var í annarlegu ástandi, á hann með höggum á andlit hans. Hún var vistuð í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna hennar frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun. 74 mál bókuð í kerfinu á tímabilinu og gista níu í fangaklefum nú í morgunsárið.
Lögreglan í miðborginni fékk tilkynningu um mann sem var að brjóta rúður á hóteli. Sá reyndist mjög ölvaður og var hann vistaður í fangaklefa enda ekki ástandi til að vera á meðal almennings en svo segir í pósti lögreglunnar.
Tilkynnt var um mann sem lét öllum illum látum á hótelherbergi. Hann hafði orð á því að hann myndi slást við lögregluna þegar hún kæmi á staðin. Rætt við manninn í herberginu sem var í annarlegu ástandi sökum fíkniefna. Inni í herberginu mátti sjá meint fíkniefni. Aðilinn handtekinn og fluttur á lögreglustöð þar sem meiri fíkniefni fundust í hans vörslu. Hann var vistaður í fangaklefa.
Þá var tilkynnt um tvö innbrot á hótelum í miðborginni. Á öðru hótelinu var stolið vegabréfi og heyrnatólum og á hinu var hurð spennt upp fyrir aftan hótelið og farið þar inn. Enginn var á staðnum þegar lögreglu bar að garði.
Tilkynnt um eld sem reyndist vera í grilli matsölustaðar. Greiðlega gekk að slökkva eldinn af slökkviliðinu og engar meiriháttar skemmdir í eldhúsinu fyrir utan eldunartækið.
Lögreglustöð 3, sem sinnir Kópavogi og Breiðholti, fékk tilkynningu um mann beran að ofan með barefli við húsnæði. Maðurinn var mjög ölvaður og var handtekinn og vistaður í fangaklefa sökum ástand og brots á vopnalögum.