Ekkert lát er á skjálftahrinunni sem hófst í grennd við Grímsey í fyrradag og hafa mælst um 1.700 skjálftar frá því að hrinan hófst.
Stærsti skjálftinn í hrinunni varð í gærmorgun sem var 5 að stærð og rétt fyrir miðnætti í gær mældist skjálfti af stærðinni 3,8. Fjölmargir skjálftar hafa mælst það sem af er degi, sá stærsti 3 að stærð rétt fyrir klukkan 10 í morgun.
„Þessi hrina er enn í fullum gangi og skjálftarnir koma í bylgjum. Frá því klukkan 6 í morgun hafa verið að mælast nokkrir skjálftar á milli 2-3 að stærð,“ segir Steinunn Helgadóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði, sagði í samtali við mbl.is á þriðjudaginn að ekki væri hægt að útiloka kvikuhreyfingar á þessu svæði.
Steinunn segir að líklegast sé um sniðgengishreyfingar á jarðskorpunni að ræða. Hún segir skjálftahrinur séu frekar algengar á þessu svæði og það geti alveg komið skjálftar upp á 6 að stærð en Grímsey liggur á þverbrotabelti. Virkin er að mestu bundin við svæði rétt austan við Grímsey.
„Við höfum fengið margar tilkynningar frá fólki í Grímsey, á Akureyri og á Dalvík sem hafa fundið vel fyrir skjálftunum,“ segir hún.