Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknarflokksins, og Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, tókust á um hvort Alþingi ætti að skipta sér af fréttaumfjöllun RÚV í gagnalekamálinu svokallaða.
Ingibjörg spurði Loga svara í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag.
„Eins og alþjóð veit var nýlega upplýst að trúnaðargögn úr lögreglurannsóknum, m.a. símtalaskrár og rannsóknarupplýsingar sem áttu að vera í öruggri vörslu hjá embætti sérstaks saksóknara, hafi lent í höndum einkaaðila og í kjölfarið orðið að umfjöllunarefni hjá Ríkisútvarpinu, okkar ríkisfjölmiðli,“ sagði Ingibjörg.
Sagði hún frá því að trúnaðarupplýsingar sem einstaklingar áttu ekki von á að yrðu birtar opinberlega hefðu orðið að sjónvarpsumfjöllun.
„Þetta vekur eðlilegar og brýnar spurningar um hvernig meðferð ólögmætra trúnaðargagna er háttað hjá Ríkisútvarpinu og hvaða ábyrgð hvílir á þeim sem fara með stjórn þess þegar slíkar upplýsingar eru birtar.“
Spurði hún því Loga hvort hann teldi mikilvægt að Alþingi myndi óska eftir sérstakri skýrslu frá RÚV um „hvernig haldið sé utan um og farið með gögn sem upphaflega eru í vörslu lögreglu og einkum þau sem teljast þá ólögmæt til dreifingar.“
Logi tók það sérstaklega fram að útvarpsstjóri væri ráðinn af stjórn RÚV.
Sagði hann að þó að ráðherra færi með eignarhlut íslenska ríkisins þá væri stjórn RÚV með æðsta vald í málefnum þess og bæri ábyrgð á rekstri.
„Ráðherra hefur ekki inngrip og mun ekki hafa inngrip í einstaka efnisumfjöllun eða fréttaöflun að öðru leyti,“ sagði Logi.
Sagði hann að það yrðu nýmæli ef pólitísk afskipti yrðu meiri af heimildaöflun eða fréttaumfjöllun.
„Ég vara við því að Alþingi fari sérstaklega að sýsla með það um hvað er fjallað, með hvaða hætti gagna er aflað og annað slíkt.“
Ingibjörg ítrekaði þá að RÚV væri enn með í sinni vörðu viðkvæmar upplýsingar frá lögregluyfirvöldum og sérstökum saksóknara og að Logi væri hæstráðandi þrátt fyrir að það væri stjórn yfir RÚV.
„Að mínu mati er nauðsynlegt að hæstv. ráðherra sjái til þess að þessi gögn verði meðhöndluð af ábyrgð og tryggt að frekari birting þeirra skaði hvorki réttaröryggi né traust almennings,“ sagði Ingibjörg.
Spurði hún hvort Logi væri virkilega þeirrar skoðunar að Alþingi ætti ekki að aðhafast frekar í málinu í ljósi þess að hlutverk Alþingis væri að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu.
Logi sagði þá dapurlegt að Ingibjörg skyldi ýja að því að feta þessa slóð sem hún ræddi um.
„Við værum þá komin á einhvern allt annan stað varðandi samband stjórnmála og frjálsrar fjölmiðlunar ef við færum að rannsaka þetta með þessum hætti,“ sagði hann.
Ráðherra, jú, hann er yfir RÚV, en það þýðir ekki að hann eigi, megi eða geti vaðið þar inn og haft áhrif á fréttir og fréttaöflun og heimildaöflun.