Afgreiðslu tillögu Sjálfstæðisflokksins, um að framkvæmdir við Fossvogsbrú verði teknar til endurmats vegna hinnar miklu kostnaðaraukningar sem orðið hefur á verkefninu frá því það var fyrst kynnt til sögunnar, var frestað á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar í gær.
Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi lagði tillöguna fram og kveðst hún vonast til þess að hún verði tekin til afgreiðslu hið fyrsta.
Í tillögunni er mælt fyrir um að Reykjavíkurborg beiti sér fyrir því að samstarfsaðilar samgöngusáttmálans endurmeti framkvæmdir við Fossvogsbrú og hvort mögulega verði fallið frá þeim eða hagkvæmari lausn fundin á tengingu almenningssamgangna á milli Reykjavíkur og Kársness í Kópavogi. Áætlaður kostnaður við framkvæmdina hafi enda rokið upp úr 2,25 milljörðum í 8,8 milljarða sem sé nærri fjórföldun frá upphaflegri áætlun. Það veki spurningar um áætlanagerð og fjármálastjórn verkefnisins.
„Þessi kostnaðaraukning hefur valdið skattgreiðendum í Reykjavík verulegum áhyggjum. Því til staðfestingar lögðu borgarbúar sjálfir til að bygging Fossvogsbrúar yrði endurskoðuð þegar borgin auglýsti eftir hagræðingartillögum nýverið,“ segir Marta í samtali við Morgunblaðið.
Hún bendir á að ekki sé allt sem sýnist þegar kemur að kostnaði við framkvæmdina. Hún segir að þáverandi ráðherra sveitarstjórnarmála, Sigurður Ingi Jóhannsson, hafi kallað eftir því að útboð Reykjavíkurborgar yrði skoðað innan ráðuneytisins og óskað m.a. eftir gögnum frá borginni vegna málsins.
„Ekki hefur enn verið birt opinber niðurstaða eða greinargerð frá ráðuneytinu vegna þessa máls, en ég hef sent ráðuneytinu erindi vegna þess á grundvelli upplýsingalaga,“ segir hún.
Marta segir að athygli veki að dýrasta tillagan hafi orðið fyrir valinu og hafi Betri samgöngur reynt að réttlæta valið með því að kalla brúna yfir Fossvog „krúnudjásn“ í viðleitni sinni til að réttlæta kostnaðinn. Í þessu samhengi verði að hafa í huga að brúin muni eingöngu þjóna almenningsvögnum, en ekki almennri umferð ökutækja.
Hún segir einnig að Ríkisendurskoðun hafi tekið málið til skoðunar og vinni nú að greiningu á verkefninu, en embættið hyggist fylgjast með framvindu Fossvogsbrúar, meta kostnað og hvort útboðsferlið hafi verið í samræmi við lög og reglur.
„Í ljósi framangreindra staðreynda er ljóst að framkvæmdin við Fossvogsbrú stendur ekki undir þeim forsendum sem upphaflega voru settar fram. Því er eðlilegt og nauðsynlegt að borgin, í samstarfi við aðra aðila samgöngusáttmálans, staldri við, horfist í augu við breyttar forsendur og meti hvort rétt sé að halda áfram, hætta við eða leita hagkvæmari leiða. Það er lágmarkskrafa í þágu skynsemi, ábyrgðar og virðingar fyrir skattfé borgarbúa að gripið sé til slíks endurmats,“ segir Marta sem telur brýnt að hraða afgreiðslu tillögunnar.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.