„Við vorum með þverfaglega vinnustofu um Vesturbugt þar sem slippasvæðið við Mýrargötu var tekið fyrir. Ástæðan fyrir því að við tökum þetta svæði fyrir er vegna tillagna í deiliskipulagi sem gerir ráð fyrir íbúðabyggð með 177 íbúðum,“ segir Páll Jakob Líndal umhverfissálfræðingur um verkefni og hugmyndafræði sem snýst um að byggja inn í byggðamynstur og taka mið af sögunni þegar reitir í gamla bænum eru skipulagðir.
Hann segir markmið vinnunnar að koma með grófar tillögur að því hvernig þetta svæði geti þróast til framtíðar. Margir hafi komið að vinnunni, eins og leikmenn, Háskólinn og borgarfulltrúar. Þeir borgarfulltrúar sem mættu komu frá Sósíalistaflokknum, Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum.
„Skipulagið sem Reykjavíkurborg lét gera er í sama anda og við sjáum um alla borg, sem er 3-5 hæða kassar á djúpum byggingarreitum, dimmum íbúðum og flötu þaki. Þetta er það sama og við sjáum á Hlíðarenda, Vogabyggð og Sunnusmára. Það eru engin gæði í því sem þarna er verið að búa til og það er verið að traðka á sögu og menningu Reykjavíkur.“
Hann segir það hafa gleymst í skipulagi Reykjavíkur að skilgreina mikilvægi hafnarsvæðisins.
„Það skilja allir mikilvægi Tjarnarinnar og Austurvallar á meðan höfnin er afskipt. Fólk myndi sperra eyrun ef það kæmu fram hugmyndir um að byggja við Tjörnina eða á Austurvelli til að þétta byggð. Höfnin er mjög mikilvægt svæði og í sögulegu samhengi er hægt að gefa sér að Ingólfur Arnarson hafi stigið þarna fyrst á land og þetta hefur verið tenging við umheiminn í gegn um aldirnar og á síðustu áratugum saga skipasmíða í landinu.“
Hópurinn hefur barist fyrir því að þetta svæði verði skipulagt með tilliti til samhengis byggðar og hafnar og kynnti niðurstöðu sína á sunnudaginn var.
„Það eru tvær grófar tillögur hvernig þetta svæði gæti litið út til samanburðar við þær tillögur sem hafa verið lagðar fram og samþykktar. Okkar tillögur ganga út á að þarna myndist samfella við gömlu byggðina fyrir ofan Mýrargötuna eins og Bakkastíg og Nýlendugötu.“
Við vinnuna var stuðst við þrívíddartækni eða tölvuleikjatækni. Búið er að gera þrívíddarmódel af allri Reykjavík og smíðuð þrívíddarmódel af húsum inn á reitinn þannig að fólk á að geta séð þetta eins og af jörðu niðri.
Spurður hvort þessi tillaga sé ekki of seint fram komin þar sem búið er að skipuleggja og selja lóðina segir Páll að ekki sé byrjað að byggja, þannig að ennþá sé hægt að skipta um skoðun.
„Lóðarhafar eru í startholunum og Örn hjá M3 kom á vinnustofuna og er fullkomlega meðvitaður um þetta allt saman. Þetta er það mikilvægt svæði að það þarf að fá betri umfjöllun og allt aðra nálgun því þetta er síðasti bitinn af hafnarsvæðinu sem hefur ennþá sögulega skírskotun sem teygir sig aftur til landnáms,“ segir Páll.
Örn V. Kjartansson framkvæmdastjóri M3 fasteignaþróunar segir að sér lítist vel á að áhugafólk um skipulagsmál taki höndum saman og leggi fram tillögur, en það sé of seint fram komið að leggja til eitthvað annað en glænýtt skipulag sem borgin sjálf lét gera og seldi.
„Ég keypti lóðirnar með því deiliskipulagi sem borgin hafði látið gera og við byrjum í sumar ef allt gengur eftir. Ég tel skynsamlegra að horfa til reita sem ekki er nýlega búið að skipuleggja og líka vegna þess að borgin hefur ekki verið tilbúin að hlusta á hugmyndir eins og þessar, á þessum reit.“
Hann nefnir svæði þar sem átti að vera leikskóli en verður borgarlóð.
„Svo er svæðið næst höfninni þar sem núna eru skúrar í kringum ferðaþjónustu og athafnasvæði slippsins. Það yrði sannarlega góð breyting að breyta 200-300 bílastæðum í fallega íbúðauppbyggingu á þessu svæði við Vesturhöfn.“
Örn bendir á að búið sé að fara í landfyllingu fyrir framan fyrirhugaða byggð, búa til gönguleið og umbreyta landinu frá því sem var, þegar Daníelsslippurinn var þarna.
„Sagan getur verið lifandi þótt ekki sé haldið í gamla hluti. Við munum byggja á auðri lóð og ætlum að byggja fallega íbúðabyggð með göngutengingum í kring, sem er ofan á í dag.“
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.