Ný brú yfir Sæbraut: „Gert í bongó blíðu"

Göngubrúin verður flutt frá athafnasvæði Ístaks í kvöld.
Göngubrúin verður flutt frá athafnasvæði Ístaks í kvöld. mbl.is/Eyþór

Ný 28 metra löng göngu- og hjóla­brú verður flutt í heilu lagi í lög­reglu­fylgd frá Mos­fells­bæ til Sæ­braut­ar í Reykja­vík í kvöld. Brú­in verður flutt í vagni frá at­hafna­svæði verk­tak­ans Ístaks í Tungu­mel­um og hefst ferðalagið um átta­leytið.

Brúnni verður í fram­hald­inu komið fyr­ir á stiga­hús­um sem hafa verið reist við Duggu­vog og Snekkju­vog.

Fram­kvæmd­ir hefjast um tíu­leytið þegar krana sem mun hífa brúna upp verður komið fyr­ir við Sæ­braut. Áætlað er að um tvo klukku­tíma taki að koma hon­um fyr­ir og bú­ist er við því að brú­in verði kom­inn á sinn stað klukk­an sex í fyrra­málið, áður en morg­un­um­ferðin hefst.

Brúnni verður komið fyrir á stigahúsum.
Brúnni verður komið fyr­ir á stiga­hús­um. Ljós­mynd/​Vega­gerðin

Um­fangs­mikl­ar lok­an­ir

Um­fangs­mikl­ar vega­lok­an­ir verða á meðan á þessu stóra verk­efni stend­ur frá klukk­an 22 í kvöld. Meðal ann­ars verður Sæ­braut lokuð á þess­um kafla, að sögn Sig­ríðar Ingu Sig­urðardótt­ur hjá sam­skipta­deild Vega­gerðar­inn­ar. Stofn­un­in hef­ur yf­ir­um­sjón með verk­inu.

„Þetta er gert í bongó blíðu. Við gæt­um ekki verið heppn­ari með veður,“ seg­ir Sig­ríður Inga, en mik­il­vægt er að vinna verk­efnið í logni.

Vilja tryggja ör­ugga leið

Nýja göngu- og hjóla­brú­in, sem var smíðuð af alþjóðlega fyr­ir­tæk­inu Acrow, verður um miðja vegu milli gatna­móta Sæ­braut­ar við Súðavog ann­ars veg­ar og Klepps­mýr­ar­veg­ar hins veg­ar. Með henni verður til ný göngu­leið milli Duggu­vogs við Trana­vog og Snekkju­vogs. Von­ir standa til að brú­in verði tek­in í notk­un í byrj­un júní.

„Þetta er fyrst og fremst gert til að tryggja ör­ugga göngu­leið, ekki síst fyr­ir skóla­börn úr nýju Voga­byggðinni yfir í Voga­skóla. Þetta er hluti af ör­yggisaðgerðum í tengsl­um við nýja sam­göngusátt­mál­ann,“ bæt­ir Sig­ríður Inga við.

Umferð um Sæbraut.
Um­ferð um Sæ­braut. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Lyft­ur og hæðaslár 

Þegar brú­in verður kom­in á sinn stað held­ur vinna við stiga­hús­in áfram. Gengið verður frá teng­ing­um milli brú­ar og stiga­húsa, sett upp lýs­ing og mynda­véla­kerfi, gengið frá jarðvegi við stiga­hús­in og göngu- og hjóla­stíg­ar mal­bikaðir. Lyft­ur verða síðan sett­ar upp við báða brúar­enda. Þær eru á leiðinni til lands­ins og verða sett­ar upp um næstu mánaðamót.

Hæðaslár verða jafn­framt sett­ar upp fyr­ir fram­an brúna, beggja vegna, til að reyna að koma í veg fyr­ir að vöru­bíl­ar og flutn­inga­bíl­ar rek­ist und­ir hana.

Í til­kynn­ingu bein­ir Vega­gerðin þeim til­mæl­um til verk­taka og flutn­ings­fyr­ir­tækja að kynna hæðatak­mark­an­ir við brúna fyr­ir sínu starfs­fólki. „Ástæða er til þess að hvetja öku­menn stærri bíla til að setja niður palla á vöru­bíl­um, pakka sam­an bíl­krön­um og svo fram­veg­is, svo ekki komi til óhappa eða slysa vegna hæðatak­mark­an­anna,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

Þegar fram­kvæmd­ir vegna Sæ­braut­ar­stokks hefjast, sam­kvæmt sam­göngusátt­mála, verður síðan hægt að taka niður brúna og færa hana yfir á ann­an stað, að sögn Sig­ríðar Ingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert