„Það er aldrei of seint. Ef vilji er fyrir hendi, þá er til vegur,“ segir Kristín Siggeirsdóttir, framkvæmdastjóri Janusar endurhæfingar, sem hingað til hefur haldið sig til hlés í umræðu um lokun úrræðisins.
Visar Kristín í orð Ölmu Möller heilbrigðisráðherra um að mál Janusar væri of langt komið til að undirskriftalisti skjólstæðinga hefði mikil áhrif.
„Sú ákvörðun að halda mig til hlés var tekin með hagsmuni og velferð skjólstæðinga okkar að leiðarljósi. Nú tel ég hins vegar nauðsynlegt að stíga fram og leiðrétta eitthvað af þeim rangfærslum sem hafa komið fram í máli stjórnvalda og forstjóra Virk í fjölmiðlum.“
Þá segir hún því ranglega haldið fram að samningaviðræður hafi ekki gengið upp vegna krafa forsvarsmanna Janusar, þar sem að raunverulegar samningaviðræður hafi aldrei hafist.
„Kröfurnar okkar voru að starfsemin myndi halda sér til að byrja með þannig að eðlileg yfirfærsla þekkingar tækist sem best og að hópurinn hefði áfram líflínu sína. Við vorum vitaskuld tilbúin til að nýta okkur samlegðaráhrif annarra úrræða, ef til þess hefði komið. Annað er bara fjarstæða.“
Kristín segir skjólstæðinga Janusar endurhæfingar enn upplifa mikla óvissu, kvíða og vanlíðan vegna yfirvofandi lokunar á úrræðinu.
Þá tekur hún undir orð skjólstæðinga Janusar úr umfjöllun mbl.is og segir fullyrðingar heilbrigðisráðherra um að öllum sem njóta þjónustu hjá Janusi endurhæfingu hafi þegar verið tryggt annað sambærilegt úrræði ekki standast skoðun.
„Skjólstæðingarnir hafa sjálfir bent á að þessi yfirlýsing sé ekki í samræmi við þann veruleika sem þeir búa við.“
„Í máli forstjóra Virk má greina rót vandans sem skjólstæðingar okkar standa frammi fyrir. Þar kemur fram skortur á skilningi og þekkingu á sérstöðu og þörfum þessa hóps,“ segir Kristín.
Virk veiti um þrjú þúsund einstaklingum þjónustu og þó að meirihluti þeirra fái viðeigandi þjónustu sé ljóst að í svona umfangsmikilli starfsemi geti sá hópur sem þarf sértækari og persónulegri þjónustu orðið út undan.
„Þeir sem leita til Janusar endurhæfingar eru með flóknari og margþættari stuðningsþarfir en stærsti hópur skjólstæðinga Virk. Þau þurfa þétt utanumhald, sérhæfða nálgun og sveigjanleika sem byggir á sérstakri þekkingu þverfaglegs teymis undir stjórn geðlæknis.
Það er því mikilvægt að slíkt úrræði sé áfram til staðar og að ákvarðanir stjórnvalda taki mið af raunverulegri reynslu og þörfum þeirra sem þjónustan snýst um. Hlusti, heyri og framkvæmi með hag hópsins og samfélagsins í huga.“
Í skýrslu nefndar um heildarúttekt á þjónustu VIRK, skipaðrar af Ásmundi Einari Daðasyni, þáverandi félags- og barnamálaráðherra, frá því um haustið 2022, koma fram sautján ábendingar frá nefndinni um hvað mætti betur fara í starfseminni.
Má þar helst nefna að með flutningi á þjónustusamningum starfsendurhæfingarstöðvanna frá félagsmálaráðuneyti til VIRK – Starfsendurhæfingarsjóðs hafi starfsemi og þjónusta þeirra tekið breytingum í þá veru að viðkvæmir hópar eiga ekki nógu greiða leið að þjónustunni.
Það var einnig mat nefndarinnar að með því að fela einum og sama aðila mat á þörf, ákvarðanir um framkvæmd og kaup á atvinnutengdri starfsendurhæfingu hafi mikil völd yfir framkvæmd og þróun slíkrar þjónustu verið færð á einn stað í kerfi endurhæfingar í landinu.
Þá hafi ófullnægjandi skilgreiningar á hugtökum um starfsendurhæfingu leitt til þess að þröngri túlkun á atvinnutengdri starfsendurhæfingu sé beitt, sem geti mismunað hluta þess hóps sem starfsendurhæfingarsjóðum er ætlað að veita þjónustu.
Að sögn Kristínar hefur enginn úr núverandi ríkisstjórn komið í heimsókn í Janus endurhæfingu, þrátt fyrir ítrekuð boð, en það segir hún einu leiðina til að gera sér grein fyrir mikilvægi úrræðisins.
Ölmu Möller heilbrigðisráðherra og Ingu Sæland félagsmálaráðherra hafi verið boðið í heimsókn þann 22. desember.
„Inga ætlaði að koma í heimsókn og stoppa lengi og vel, en hætti við það á síðustu stundu. Alma kom ekki og svaraði ekki, en aðstoðarmaður hennar kom í heimsókn daginn áður en við fengum fund með Ölmu.
Það eru skrítin vinnubrögð, að koma ekki og kynna sér málið frá fyrstu hendi. Það er verið að loka úrræði án þess að vita almennilega hverju er verið að loka – nema bara út frá upplýsingaóreiðu.“
Það er upplifun skjólstæðinga, aðstandenda og starfsfólks Janusar að málið sé munaðarlaust innan stjórnsýslunnar.
Segir Kristín að heilbrigðisráðherra hafi sagst ekki geta gert samning um starfsendurhæfingu, vegna þess að málefnið heyri undir félagsmálaráðuneytið. Aftur á móti hafi félagsmálaráðherra sagt að starfsendurhæfing sé ekki á hennar borði og eigi heima í heilbrigðisráðuneytinu.
„Niðurstaðan er sú að starfsendurhæfing fyrir fólk með geðrænan vanda virðist liggja á milli ráðuneyta – án þess að nokkur axli ábyrgð. Hér þarf að taka til hendinni strax.
Það gengur auðvitað ekki upp að núverandi ráðherrar segist ekki bera ábyrgð á málinu. Ráðherrar hljóta að bera ábyrgð á sínum málaflokkum alveg óháð því hvað forverar þeirra gerðu í sínu starfi.