„Ráðherrar hljóta að bera ábyrgð“

„Í máli forstjóra Virk má greina rót vandans sem skjólstæðingar …
„Í máli forstjóra Virk má greina rót vandans sem skjólstæðingar okkar standa frammi fyrir. Þar kemur fram skortur á skilningi, þekkingu á sérstöðu og þörfum þessa hóps,“ segir Kristín. Samsett mynd/mbl.is/Kristófer Liljar/mbl.is/Árni Sæberg

„Það er aldrei of seint. Ef vilji er fyr­ir hendi, þá er til veg­ur,“ seg­ir Krist­ín Sig­geirs­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Janus­ar end­ur­hæf­ing­ar, sem hingað til hef­ur haldið sig til hlés í umræðu um lok­un úrræðis­ins.

Vis­ar Krist­ín í orð Ölmu Möller heil­brigðisráðherra um að mál Janus­ar væri of langt komið til að und­ir­skriftalisti skjól­stæðinga hefði mik­il áhrif.

„Sú ákvörðun að halda mig til hlés var tek­in með hags­muni og vel­ferð skjól­stæðinga okk­ar að leiðarljósi. Nú tel ég hins veg­ar nauðsyn­legt að stíga fram og leiðrétta eitt­hvað af þeim rang­færsl­um sem hafa komið fram í máli stjórn­valda og for­stjóra Virk í fjöl­miðlum.“

Þá seg­ir hún því rang­lega haldið fram að samn­ingaviðræður hafi ekki gengið upp vegna krafa for­svars­manna Janus­ar, þar sem að raun­veru­leg­ar samn­ingaviðræður hafi aldrei haf­ist.

„Kröf­urn­ar okk­ar voru að starf­sem­in myndi halda sér til að byrja með þannig að eðli­leg yf­ir­færsla þekk­ing­ar tæk­ist sem best og að hóp­ur­inn hefði áfram líflínu sína. Við vor­um vita­skuld til­bú­in til að nýta okk­ur sam­legðaráhrif annarra úrræða, ef til þess hefði komið. Annað er bara fjar­stæða.“

Ekki í sam­ræmi við veru­leika skjól­stæðinga

Krist­ín seg­ir skjól­stæðinga Janus­ar end­ur­hæf­ing­ar enn upp­lifa mikla óvissu, kvíða og van­líðan vegna yf­ir­vof­andi lok­un­ar á úrræðinu.

Þá tek­ur hún und­ir orð skjól­stæðinga Jan­us­ar úr um­fjöll­un mbl.is og seg­ir full­yrðing­ar heil­brigðisráðherra um að öll­um sem njóta þjón­ustu hjá Jan­usi end­ur­hæf­ingu hafi þegar verið tryggt annað sam­bæri­legt úrræði ekki stand­ast skoðun.

„Skjól­stæðing­arn­ir hafa sjálf­ir bent á að þessi yf­ir­lýs­ing sé ekki í sam­ræmi við þann veru­leika sem þeir búa við.“

„Í máli for­stjóra Virk má greina rót vand­ans“

„Í máli for­stjóra Virk má greina rót vand­ans sem skjól­stæðing­ar okk­ar standa frammi fyr­ir. Þar kem­ur fram skort­ur á skiln­ingi og þekk­ingu á sér­stöðu og þörf­um þessa hóps,“ seg­ir Krist­ín.

Virk veiti um þrjú þúsund ein­stak­ling­um þjón­ustu og þó að meiri­hluti þeirra fái viðeig­andi þjón­ustu sé ljóst að í svona um­fangs­mik­illi starf­semi geti sá hóp­ur sem þarf sér­tæk­ari og per­sónu­legri þjón­ustu orðið út und­an.

„Þeir sem leita til Janus­ar end­ur­hæf­ing­ar eru með flókn­ari og margþætt­ari stuðningsþarf­ir en stærsti hóp­ur skjól­stæðinga Virk. Þau þurfa þétt ut­an­um­hald, sér­hæfða nálg­un og sveigj­an­leika sem bygg­ir á sér­stakri þekk­ingu þverfag­legs teym­is und­ir stjórn geðlækn­is.

Það er því mik­il­vægt að slíkt úrræði sé áfram til staðar og að ákv­arðanir stjórn­valda taki mið af raun­veru­legri reynslu og þörf­um þeirra sem þjón­ust­an snýst um. Hlusti, heyri og fram­kvæmi með hag hóps­ins og sam­fé­lags­ins í huga.“

„Viðkvæm­ir hóp­ar eiga ekki nógu greiða leið að þjón­ust­unni“

Í skýrslu nefnd­ar um heild­ar­út­tekt á þjón­ustu VIRK, skipaðrar af Ásmundi Ein­ari Daðasyni, þáver­andi fé­lags- og barna­málaráðherra, frá því um haustið 2022, koma fram sautján ábend­ing­ar frá nefnd­inni um hvað mætti bet­ur fara í starf­sem­inni.

Má þar helst nefna að með flutn­ingi á þjón­ustu­samn­ing­um starf­send­ur­hæf­ing­ar­stöðvanna frá fé­lags­málaráðuneyti til VIRK – Starf­send­ur­hæf­ing­ar­sjóðs hafi starf­semi og þjón­usta þeirra tekið breyt­ing­um í þá veru að viðkvæm­ir hóp­ar eiga ekki nógu greiða leið að þjón­ust­unni.

Það var einnig mat nefnd­ar­inn­ar að með því að fela ein­um og sama aðila mat á þörf, ákv­arðanir um fram­kvæmd og kaup á at­vinnu­tengdri starf­send­ur­hæf­ingu hafi mik­il völd yfir fram­kvæmd og þróun slíkr­ar þjón­ustu verið færð á einn stað í kerfi end­ur­hæf­ing­ar í land­inu.

Þá hafi ófull­nægj­andi skil­grein­ing­ar á hug­tök­um um starf­send­ur­hæf­ingu leitt til þess að þröngri túlk­un á at­vinnu­tengdri starf­send­ur­hæf­ingu sé beitt, sem geti mis­munað hluta þess hóps sem starf­send­ur­hæf­ing­ar­sjóðum er ætlað að veita þjón­ustu.

Eng­inn úr rík­is­stjórn komið í heim­sókn

Að sögn Krist­ín­ar hef­ur eng­inn úr nú­ver­andi rík­is­stjórn komið í heim­sókn í Jan­us end­ur­hæf­ingu, þrátt fyr­ir ít­rekuð boð, en það seg­ir hún einu leiðina til að gera sér grein fyr­ir mik­il­vægi úrræðis­ins.

Ölmu Möller heil­brigðisráðherra og Ingu Sæ­land fé­lags­málaráðherra hafi verið boðið í heim­sókn þann 22. des­em­ber.

„Inga ætlaði að koma í heim­sókn og stoppa lengi og vel, en hætti við það á síðustu stundu. Alma kom ekki og svaraði ekki, en aðstoðarmaður henn­ar kom í heim­sókn dag­inn áður en við feng­um fund með Ölmu.

Það eru skrít­in vinnu­brögð, að koma ekki og kynna sér málið frá fyrstu hendi. Það er verið að loka úrræði án þess að vita al­menni­lega hverju er verið að loka – nema bara út frá upp­lýs­inga­óreiðu.“

Munaðarleys­ingj­ar inn­an stjórn­sýsl­unn­ar

Það er upp­lif­un skjól­stæðinga, aðstand­enda og starfs­fólks Janus­ar að málið sé munaðarlaust inn­an stjórn­sýsl­unn­ar.

Seg­ir Krist­ín að heil­brigðisráðherra hafi sagst ekki geta gert samn­ing um starf­send­ur­hæf­ingu, vegna þess að mál­efnið heyri und­ir fé­lags­málaráðuneytið. Aft­ur á móti hafi fé­lags­málaráðherra sagt að starf­send­ur­hæf­ing sé ekki á henn­ar borði og eigi heima í heil­brigðisráðuneyt­inu.

„Niðurstaðan er sú að starf­send­ur­hæf­ing fyr­ir fólk með geðræn­an vanda virðist liggja á milli ráðuneyta – án þess að nokk­ur axli ábyrgð. Hér þarf að taka til hend­inni strax.

Það geng­ur auðvitað ekki upp að nú­ver­andi ráðherr­ar seg­ist ekki bera ábyrgð á mál­inu. Ráðherr­ar hljóta að bera ábyrgð á sín­um mála­flokk­um al­veg óháð því hvað for­ver­ar þeirra gerðu í sínu starfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert