Staða Sigurðar Inga veikist mikið

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sig­urður Ingi Jó­hanns­son, formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins, nýt­ur aðeins stuðnings um 19% stuðnings­manna Fram­sókn­ar til þess að gegna áfram for­mennsku í flokkn­um. Það er þó hærra hlut­fall en meðal allra svar­enda í könn­un Maskínu, en 17% þeirra nefndu Sig­urð Inga sem næsta formann flokks­ins.

Óhætt virðist því að full­yrða að staða Sig­urðar Inga í for­ystu flokks­ins sé afar veik, en fylgi flokks­ins hef­ur ekki held­ur styrkst frá kosn­ing­um. Lagt hef­ur verið til að flokksþingi Fram­sókn­ar verði flýtt, en það kýs formann.

Könn­un­in var gerð fyr­ir hlaðvarpið Komið gott! í um­sjón þeirra Ólaf­ar Skafta­dótt­ur og Krist­ín­ar Gunn­ars­dótt­ur. Það að spyrja um næsta formann kem­ur vel heim og sam­an við þá yf­ir­lýstu rit­stjórn­ar­stefnu þess, að fara frek­ar í mann­inn en mál­efn­in.

Niðurstöður könnunar Maskínu 15. til 20. maí 2025.
Niður­stöður könn­un­ar Maskínu 15. til 20. maí 2025.

Will­um og Lilja vin­sæl

Bæði Will­um Þór Þórs­son og Lilja Al­freðsdótt­ir fengu mun meiri stuðning í könn­un­inni til þess að verða næsti formaður Fram­sókn­ar í könn­un Maskínu, sem gerð var í liðinni viku, á því hver væri best fall­inn til þess að verða næsti formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Þegar horft er til stuðnings­manna Fram­sókn­ar fékk Will­um Þór 33% fylgi, en Lilja 29%. Könn­un­in var gerð um það leyti sem kosn­inga­bar­átta Will­ums til for­seta Íþrótta­sam­bands Íslands (ÍSÍ) stóð sem hæst, en hann hlaut af­ger­andi kosn­ingu í embættið um síðustu helgi.

Frami Will­ums í íþrótta­hreyf­ing­unni set­ur að lík­ind­um strik í þessa reikn­inga, því ólík­legt verður að telj­ast að hann blandi sér aft­ur í stjórn­mál­in í bili, a.m.k. á meðan hann sit­ur á for­seta­stóli ÍSÍ.

Á hinn bóg­inn virðist Lilja Al­freðsdótt­ir hvergi nærri hætt í stjórn­mál­um, hef­ur sig tals­vert í frammi á þeim vett­vangi, enda vara­formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Ein­ar Þor­steins­son, odd­viti flokks­ins í borg­ar­stjórn Reykja­vík­ur, hlaut 6% meðal kjós­enda Fram­sókn­ar en 10% í heild­ina, en aðrir mögu­leg­ir for­mannskandí­dat­ar mun minna, sam­tals 13% hjá fram­sókn­ar­mönn­um en 9% í heild.

Sjá má nokk­urn mun á af­stöðu stuðnings­fólks Fram­sókn­ar og allra svar­enda í könn­un­inni, sem draga mætti ýms­ar álykt­an­ir af, en hann er ekki veru­leg­ur.

Fylgið stend­ur í stað

 Fram­sókn­ar­lokk­ur­inn galt sem kunn­ugt er af­hroð í alþing­is­kosn­ing­um síðastliðið haust, fékk aðeins 7,8% fylgi og fimm þing­menn. All­ir ráðherr­ar flokks­ins nema formaður­inn féllu út af þingi, en hann hélt naum­lega velli sem 2. maður á lista flokks­ins í Suður­kjör­dæmi. Í kosn­ing­un­um 2021 hlaut flokk­ur­inn 17,3% at­kvæða og 13 menn kjörna.

Fylgi flokks­ins í skoðana­könn­un­um á landsvísu hef­ur sára­lítið hreyfst frá kosn­ing­um, mæld­ist 7% í könn­un Maskínu, sem birt var í gær, og 6% í könn­un Gallup í lok apríl.

Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn er þó ekki einn stjórn­mála­flokka um það, fylgi þeirra flestra hef­ur staðið í stað frá kosn­ing­um, nema Sam­fylk­ing­in, sem sótt hef­ur mjög í sig veðrið, og Flokk­ur fólks­ins, sem misst hef­ur nær helm­ing fylg­is síns á því tæpa hálfa ári.

Verður flokksþingi flýtt?

Tölu­verð hreyf­ing er fyr­ir því í Fram­sókn­ar­flokkn­um að flýta flokksþingi, þá vænt­an­lega til þess að breyta for­ystu­sveit flokks­ins. Nefnt er að formaður­inn þurfi að axla ábyrgð á kosn­inga­ó­sigr­in­um í haust, en til þessa hafa flokks­menn látið vera að bera gagn­rýni á Sig­urð Inga á torg.

Á vett­vangi flokks­ins kom fram til­laga í upp­hafi árs um að flýta flokksþingi. Hún nýt­ur tölu­verðs fylg­is sveit­ar­stjórna­fólks, sem gjarn­an vill að flokk­ur­inn öðlist nýja ásýnd fyr­ir sveit­ar­stjórna­kosn­ing­ar á næsta ári. Stuðnings­menn Sig­urðar Inga hafa hins veg­ar þæft málið, en end­an­leg ákvörðun verður ekki tek­in fyrr en á miðstjórn­ar­fundi í haust. Næsta reglu­legt landsþing þarf að boða ekki síðar en vorið 2026.

Könn­un­in var lögð fyr­ir Þjóðgátt Maskínu, til­vilj­un­ar­kennt úr­tak 18 ára og eldri úr þjóðskrá og svara aflað á net­inu. Þau eru veg­in sam­kvæmt mann­fjölda­töl­um Hag­stof­unn­ar um kyn, ald­ur, bú­setu og mennt­un til þess að end­ur­spegla þjóðina. Könn­un­in fór fram dag­ana 15. til 20. maí 2025 og voru svar­end­ur 1.158 tals­ins.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert