Áttar sig ekki á hvaðan ráðherra fær upplýsingar

Guðmundur Fylkisson lögreglumaður furðar sig á ummælum ráðherra um stöðuna …
Guðmundur Fylkisson lögreglumaður furðar sig á ummælum ráðherra um stöðuna á meðferðarheimilum fyrir börn. Samsett mynd/Karítas/Eggert

Guðmund­ur Fylk­is­son lög­reglumaður, sem hef­ur séð um leit að týnd­um börn­um í rúm­an ára­tug, átt­ar sig ekki á því hvaðan þær upp­lýs­ing­ar koma að við séum í góðum mál­um varðandi meðferðarúr­ræði fyr­ir börn og ung­linga, líkt og ráðherra hélt fram í viðtali á mbl.is í síðustu viku. Talað hafi verið um framtíðarlausn­ir í að minnsta kosti heilt ár, án þess að nokkuð sé fast í hendi.

Lög­reglumaður­inn furðar sig á um­mæl­um Guðmund­ar Inga Krist­ins­son­ar, mennta- og barna­málaráðherra, enda er þetta alls ekki sú upp­lif­un sem hann hef­ur af þeim verk­efn­um sem rætt er um.

Börn­um í neyslu fjölg­ar nú örar en áður, eitt­hvað sem barna­vernd­arþjón­ust­an hef­ur bent á að megi að hluta til rekja til úrræðal­eys­is í meðferðar­mál­um, og leit­ar­beiðnir það sem af er ári eru mun fleiri en síðustu ár. Stór hluti leit­ar­beiðnanna eru vegna barna sem strokið hafa af meðferðar­heim­il­um, en hinn hlut­inn vegna barna sem ættu að vera í meðferð.

Ekki far­in að sjá neitt fast í hendi

Sagði ráðherra bæði að staðan væri ágæt og að við vær­um í góðum mál­um varðandi meðferðarúr­ræði fyr­ir börn og ung­linga með fjölþætt­an vanda. Vísaði hann til þess að fram­kvæmd­ir stæðu yfir á meðferðar­heim­il­inu Stuðlum sem ljúka ætti um ára­mót­in og að mjög góð aðstaða væri á meðferðar­heim­il­inu Blöndu­hlíð á Vogi, þar sem strok hafa verið tölu­vert vanda­mál. 16 stúlka slasaðist þar al­var­lega við stroktilraun í apríl, en hún hrygg­brotnaði þegar hún féll út um glugga.

„Ég átta mig ekki á því hvaðan þær upp­lýs­ing­ar eru að koma um að hlut­irn­ir séu í góðu lagi. Þó að menn hafi ein­hverja framtíðar­sýn, að ein­hverj­ir hlut­ir eigi að verða í góðu lagi eft­ir ein­hverja mánuði, þá erum við búin að heyra það í ár og erum ekki far­in að sjá neitt ennþá fast í hendi,“ seg­ir Guðmund­ur Fylk­is­son í sam­tali við mbl.is.

Hann tek­ur þó fram að hann sinni ekki meðferðar­mál­um.

„Ég sé bara um að elt­ast við börn­in sem eiga að vera í meðferð eða þurfa að kom­ast í meðferð,“ seg­ir Guðmund­ur, en hann hef­ur haft í nógu að snú­ast síðustu mánuði í þeim verk­efn­um, enda hef­ur leit­ar­beiðnum fjölgað um næst­um 100 pró­sent á milli ára.

Fram­kvæmd­ir á Stuðlum bíða

Á Stuðlum er bæði verið að end­ur­byggja álmu fyr­ir neyðar­vist­un sem gjör­eyðilagðist í bruna í októ­ber, þar sem 17 ára pilt­ur lést, og gera breyt­ing­ar á hús­næðinu svo það henti sem úrræði fyr­ir sak­hæf börn og börn sem eru hættu­leg sjálf­um sér og öðrum. Gert er ráð fyr­ir því að þar verði í framtíðinni ein­göngu vistaðir ein­stak­ling­ar sem falla und­ir þá skil­grein­ingu.

Fyr­ir ligg­ur að ekki verður hægt að ljúka þeim fram­kvæmd­um fyrr en meðferðar­heim­ilið Lækj­ar­bakki verður opnað á ný í Gunn­ars­holti á Rangár­völl­um, þar sem verður boðið upp á lang­tímameðferð fyr­ir drengi. 

Lækj­ar­bakka var lokað í apríl í fyrra þegar upp kom mygla í hús­næðinu og því hef­ur ekki verið hægt senda drengi í lang­tímameðferð í rúmt ár. Síðustu mánuði hafa þó verið vistaðir dreng­ir á Stuðlum sem þurfa á lang­tímameðferð að halda, en þeir þurfa vænt­an­lega að kom­ast í viðeig­andi úrræði á Lækj­ar­bakka áður en hægt er að ljúka fram­kvæmd­um á Stuðlum. 

Verður það í fyrsta lagi í lok sept­em­ber eða októ­ber, en greint var frá því á mbl.is í vik­unni að asbest hefði fund­ist við fram­kvæmd­ir þar.

Taka lyf­seðils­skyld lyf í stað þess að sprauta sig

Er það upp­lif­un Guðmund­ar að það sé meiri end­ur­nýj­un en áður inn í þann hóp barna og ung­linga sem er í neyslu. En það er í sam­ræmi við það sem for­stjóri barna­vernd­ar Reykja­vík­ur sagði í viðtali á mbl.is í apríl. Talaði hún um að hóp­ur­inn hefði stækkað meira en hann hefði þurft að gera vegna skorts á meðferðarúr­ræðum á veg­um Barna- og fjöl­skyldu­stofu síðustu ár.

Guðmund­ur seg­ist þó ekki endi­lega sjá mikla fjölg­un í hópi þeirra barna sem eru í hvað hörðustu neysl­unni. En sú breyt­ing hef­ur orðið að börn og ung­ling­ar eru hætt að sprauta sig og lyf­seðlis­skyld lyf hafa komið í staðinn. Guðmund­ur seg­ir þau þó al­veg jafn hættu­leg.

Þá kem­ur hann inn á að mik­il­vægt að reyna að upp­ræta smá­sölu­versl­un með fíkni­efni.

„Ég held að lög­regl­an þurfi aðeins að fara að end­ur­skoða áhersl­ur í því að reyna að grípa smá­sölu­versl­un með fíkni­efni og lyf, sem á sér stað á sam­fé­lags­miðlum. Á meðan áhersla lög­regl­unn­ar er á stóru mál­in þá flæða smáaug­lýs­ing­arn­ar yfir okk­ur þar sem þú get­ur fengið lyf og efni inn­an fimm mín­útna,“ seg­ir Guðmund­ur.

„Aðgengi barna og ung­menna að þessu er orðið of mikið og það má huga huga að gera meira í því. Ég er ekki að segja að það sé ekk­ert gert, en það megi gera meira. Þar þarf lög­gjaf­inn líka að hugsa sinn gang.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert