Sverrir Gauti Hilmarsson, íslenskur stuðningsmaður enska knattspyrnuliðsins Liverpool, segir að gærdagurinn í Liverpool-borg hafi verið algjörlega einstakur.
Sverrir er staddur í borginni en lið Liverpool lyfti í gær Englandsmeistarabikarnum í 20. sinn. Það varð ljóst fyrir tæpum mánuði að lærisveinar Arnes Slots væru orðnir Englandsmeistarar en bikarinn fór loks á loft í gær í kjölfarið á 1:1-jafnteflisleik gegn Crystal Palace.
„Þetta var einfaldlega geðveik upplifun. Ég var með miða á leikinn en ég endaði með því að fara ekki á leikinn sjálfan. Ég var við völlinn og var með miða en ákvað svo að vera bara fyrir utan. Það var svo geðveik stemning fyrir utan að það var meiri upplifun að vera úti en inni. Ég labbaði fram hjá KOP-stúkunni og þá voru þar fimm þúsund manns hoppandi og öskrandi með rauð blys,“ segir Sverrir í samtali við blaðið.
Þetta er annar Englandsmeistaratitillinn sem lið Liverpool vinnur fimm árum, síðast gerðist það árið 2020 en þá gátu stuðningsmenn liðsins ekki fagnað titlinum af fullum krafti vegna heimsfaraldurs. Sverrir segir að stuðningsmenn Liverpool séu því að mörgu leyti að fagna tveimur Englandsmeistaratitlum í einu.
Eins og áður segir ákvað Sverrir að sleppa því að fara á leikinn. Segir hann að leikurinn sjálfur hafi ekki verið nein sérstök upplifun, aðalupplifunin verður að hans sögn í dag, þegar leikmenn og þjálfarar Liverpool fara í rútu með opnu þaki og aka um borgina með skrúðgöngu. „Rútan fer fimm kílómetra leið sem er í sjálfu sér ekki löng vegalengd en þetta tekur þó þrjá klukkutíma. Það er búist við því að rúm milljón manns verði á skrúðgöngunni til þess að fagna titlinum,“ segir Sverrir fullur tilhlökkunar.
Sverrir segist fara um það bil átta sinnum á leik hjá Liverpool á ári hverju. Hann segist ekki vita hversu oft hann hefur farið á leik hjá liðinu en segir að það séu komin vel yfir 100 skipti. Hann segir að í þetta sinn hafi upplifunin þó verið algjörlega frábrugðin öllum öðrum ferðum sem hann hefur farið í til borgarinnar, það er vegna þess að honum stóð algjörlega á sama um leikinn sem var fram undan. „Ég er oft spenntur í margar vikur en mér var skítsama um þennan leik. Ég var kominn til að fagna titli, leikurinn skiptir engu máli,“ segir Sverrir að lokum.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.