Rekstrarstaða PCC BakkaSilicon á Húsavík er grafalvarleg og að öllu óbreyttu má reikna með að verksmiðjan fari í rekstrarstöðvun í lok ágústmánaðar, að sögn Njáls Trausta Friðbertssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins.
Njáll segir að nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða. „Við höfum kallað eftir því að fjármálaráðuneytið skoði álagningu undirverðstolla. Málið hefur verið í atvinnuveganefnd en við í nefndinni höfum sent það til efnahags- og viðskiptanefndar, enda fer hún með umsjón með tollaumræðum í þinginu,“ segir Njáll í samtali við blaðið.
Kári Marís Guðmundsson forstjóri PCC sagði fyrr í mánuðinum í samtali við blaðið að staða verksmiðjunnar væri mjög dökk og að ef hún myndi ekki batna á næstu vikum væri rekstrarstöðvun yfirvofandi, þótt engin ákvörðun hefði verið tekin um það.
Njáll telur að ef bjarga eigi rekstri fyrirtækisins sé óhjákvæmilegt að leggja undirverðstolla á innfluttan kísil. „Ég tel það vera eitt af því sem þurfi að gerast og þess vegna vildi ég taka þetta mál upp í nefndum þingsins. Við í atvinnuveganefnd fengum gesti frá Húsavík, Samtökum iðnaðarins og verksmiðjunni til okkar á nefndarfund á föstudaginn fyrir rúmri viku. Ég tel að það sé gríðarlega mikilvægt að fá að heyra sjónarmið ýmissa aðila til þess að við áttum okkur á stöðu mála almennt er tengjast þessari framleiðslu,“ segir Njáll spurður hvort hann telji að leggja þurfi á undirverðstolla.
Njáll segist hafa áhyggjur af því að 85% af heimsframleiðslu á kísilmálmi fari fram í Kína, enda sé um hernaðarlega mikilvægan málm að ræða. Mikilvægt er að hans mati að fágætismálmar séu framleiddir í okkar heimshluta, enda sé einnig um öryggis- og varnarmál að ræða. PCC BakkiSilicon verði þannig fyrir barðinu á alþjóðlegum vanda, að sögn Njáls.