Skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar hefur samþykkt að stytta opnunartíma sex leikskóla í borginni. Breytingin tekur gildi 1. september og kemur til vegna þess hve fáir foreldrar nýta sér lengri opnunartíma leikskólanna auk kostnaðar.
Árið 2022 var farið í tilraunaverkefni á vegum borgarinnar þar sem einn eða tveir leikskólar í hverju hverfi voru opnir til klukkan 17. Þeir leikskólar sem tóku þátt í verkefninu voru: Bakkaborg, Hagaborg, Heiðaborg, Klettaborg, Langholt og Ævintýraborg við Nauthólsveg.
Verkefnið átti að vera til tveggja ára og í upphafi verkefnisins voru sjö foreldrar sem nýttu sér lengri opnunartíma. Þegar mest var voru 10 foreldrar sem nýttu sér opnunina en í maí voru foreldrar eins barns sem nýtti sér úrræðið.
Áætlað er að kostnaður vegna lengri opnunartíma sé um 325 þúsund krónur á ári.
Eftir breytinguna verða leikskólar á vegum borgarinnar opnir frá klukkan 7.30 til 16.30.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram tillögu á fundi skóla- og frístundaráðs um að hver leikskóli fyrir sig myndi ákvarða eigin opnunartíma til að tryggja sveigjanleika og sjálfstæði leikskólanna. Tillagan var felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa meirihlutans í borginni.
Eftir að tillagan var samþykkt lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram bókun þar sem þeir segja skiljanlegt að tillaga meirihlutans hafi verið lögð fram í ljósi þess hve fá börn nýti sér lengri opnunartíma, en að æskilegt sé að starfsemi leikskóla sé sveigjanleg með tilliti til opnunartíma.
Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum lagði einnig fram bókun á fundinum þar sem segir að eðlilegt sé að stytta opnunartímann í ljósi lítillar nýtingar og kostnaðar en að til lengri tíma litið sé æskilegt að leikskólakerfið sé sveigjanlegra í ljósi ólíkra þarfa foreldra.
„Æskilegt væri að byrja að vinna að því að búa til kerfi sem þekkist víða á Norðurlöndum og þá sérstaklega í höfuðborgum þar sem sumir leikskólar hafa langan opnunartíma til þess að koma til móts við ólíkar þarfir fjölskyldna,“ segir jafnframt í bókuninni.
Í bókun sem áheyrnarfulltrúar leikskólastjóra og starfsmanna leikskóla lögðu fram er breytingunni fagnað. Segir það að leikskólastigið eigi í vandræðum með mönnun og að erfitt hafi reynst að halda úti starfsemi skólanna til 17.