„Það er þannig að ég get ekki tjáð mig um einstök mál og ekki staðfest hvar þessi maður er vistaður, það er eins og það er,“ segir Birgir Jónasson fangelsismálastjóri í samtali við Morgunblaðið.
Hann var spurður hverju það sætti að dæmdur morðingi, Angjelin Sterkaj, sem hlaut 16 ára fangelsisdóm í Hæstarétti í júní 2023 fyrir að hafa orðið Armando Beqiari að bana með nokkrum skammbyssuskotum í búk og höfuð í Rauðagerði í Reykjavík árið 2021, væri vistaður í opnu fangelsi á Kvíabryggju.
Undrun vakti þegar nýverið birtust brúðkaupsmyndir af Angjelin þessum sem kvænst hafði konu nokkurri, en þau voru gefin saman í Grundarfjarðarkirkju.
Birgir segir þó að afplánun refsifanga sé þrepaskipt. Upphaf afplánunar fari fram í lokuðu fangelsi, en síðan, gangi allt að óskum, taki við vist í opnu fangelsi eins og Kvíabryggju. Síðan tekur við vistun á áfangaheimili í tiltekinn tíma og loks rafrænt eftirlit, áður en til reynslulausnar kemur.
„Þetta er ferli afplánunar, ef allt gengur að óskum,“ segir hann, en nefnir að komi bakslag í málið með agabroti t.d. fari viðkomandi aftur í lokað úrræði. „Við reynum að hafa tímann í lokuðu fangelsi eins skamman og unnt er.“
Í tilviki útlendinga segir Birgir að það sé oftar en ekki þannig að þeim sé veitt reynslulausn eftir helming afplánunar, en vísað úr landi að svo búnu.
„Ef útlendingur fær 16 ára dóm liggur fyrir að hann mun ekki afplána lengur hér en átta ár, en það er þá bundið við það að honum verði vísað úr landi í framhaldinu,“ segir Birgir.
Öðru máli gegnir ef Íslendingur hefur verið dæmdur til langrar fangelsisvistar. Þá kveða reglur á um að hann afpláni tvo þriðju hluta refsidómsins.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.