Innbrotsþjófur braust nýlega inn í kjallara fjölbýlishúss í miðborg Reykjavíkur og stal 30 skærbleikum hárkollum.
Eigandi hárkollanna segir þjófinn aðeins hafa kollurnar og nokkrar yfirhafnir úr geymslu en skilið annað eftir.
Frá þessu greinir Anna Guðrún Tómasdóttir, eigandi hárkollanna, sem ræddi við blaðamann mbl.is.
Þá liggur beinast við að spyrja, Anna, hvert er notagildi þessara 30 bleiku hárkollna sem þú saknar?
„Ég og Bjartey Elín Hauksdóttir, vinkona mín, höfum verið að byggja upp danssýningu sem heitir Venus í eitt og hálft ár,“ svarar hún. Anna segir þær hafa sýnt listir sínar á Reykjavík Dance Festival ásamt FWD-youth company.
„Við notum hárkollur í sýningunni þannig að við höfum verið að sanka að okkur hárkollum þennan tíma. Þetta var komið upp í 30 bleikar hárkollur sem þjófurinn hefur tekið.“
Spurð hvort hún viti hvernig hárkollurnar hafi horfið svarar Anna að einhver hafi brotist inn í kjallarann hjá sér og stolið nokkrum kápum auk pokans með hárkollunum í.
„Þjófurinn hélt kannski að það væri eitthvað annað í pokanum, svo tekur hann þýfið heim með sér og þá blasa við honum skærbleikar hárkollur,“ segir Anna.
„Þannig ef fólk sér einhvern í flottum pelsum með bleika hárkollu, þá er það ábyggilega sökudólgurinn,“ segir Anna.
Hver gæti gert svona lagað?
„Já, kannski Solla stirða...“ svarar Anna en bendir blaðamanni um leið á grunsamlegar vendingar á samfélagsmiðlum.
Hún segist hafa tekið eftir því að Dorrit Moussaieff, fyrrum forsetafrú, hafi nýlega skipt um forsíðumynd á Instagram. Þar skartar Dorrit nefnilega skærbleikri hárkollu.
„Kannski var þetta Dorrit...,“ segir Anna í hálfkæringi, „... eða Addison Rae,“.
Addison Rae? Er það ekki Tik Tok-stjarnan sem var nýverið á Íslandi?
„Jú,“ svarar Anna.
Þegar betur er að gáð sést að í tónlistarmyndbandinu sem Rae tók upp á Íslandi er hár hennar nefnilega skærbleikt.
Ætli það sé tilviljun?
„Það er spurning,“ svarar Anna. „Að öllu gríni slepptu samt, þá hef ég ekki hugmynd um hver stal hárkollunum,“ segir Anna.
Anna segist ekki hafa leitað til lögreglunnar. „Ég veit ekki hvort þeir myndu nenna að vera að leita að einhverjum hárkollum,“ segir hún. Auk þess segist hún ekki vita nákvæmlega hvenær stuldurinn átti sér stað.
„Ég fer ekkert oft niður í kjallara en hugsa að þetta hafi gerst fyrir nokkrum mánuðum,“ segir Anna en hún segist hafa uppgötvað stuldinn þegar danssýning hennar, Venus, fékk úthlutun úr sviðslistasjóði í febrúar.
„Við getum boðið fundarlaun fyrir hárkollurnar, fría miða á sýninguna,“ segir Anna sem kallar eftir því að kollunum verði skilað.
Þær Anna Guðrún og Bjartey Elín munu setja á svið danssýninguna í Ásmundarsal í ágúst.
„Venus verður sett á svið þar og frumsýnd 14. ágúst og í sýningu frá 14. til 16. ágúst. Við verðum líka með gegnsæa vinnustofu frá 7. júlí til 16. ágúst,“ segir Anna.
Anna segir þær stöllur þurfa á nýjum bleikum hárkollum að halda, nema þjófurinn sjái sóma sinn í því að skila þýfinu.
Fólk getur fylgst með undirbúningi sýningarinnar Venus á Instagram síðu Önnu og Bjarteyjar.