Lögreglan þurfti að hafa afskipti af tveimur mönnum sem voru til vandræða og streittust á móti lögreglumönnum við störf. Báðir voru mennirnir vistaðir í fangaklefa.
Í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til 5 í nótt kemur fram að tilkynnt hafi verið um menn með ógnandi tilburði við bar í miðborginni.
Annar þeirra fór eftir að lögreglan vísaði honum í burtu en æstist upp við afskipti lögreglu og var því handtekinn. Hann streittist mikið á móti lögreglumönnum og fékk að gista í klefa fyrir brot á lögreglusamþykkt.
Þá fékk lögreglan tilkynningu um mann sem óð út á götu og veittist að bifreið í umferðinni með höggum og spörkum. Farþegum bifreiðar var mjög brugðið. Lögreglan fann manninn nærri vettvangi og var hann handtekinn. Hann var mjög ölvaður og þegar reynt var að ræða við hann á lögreglustöð sýndi hann ógnandi tilburði, var með hótanir og kallaði lögreglumennina öllum illum nöfnum. Hann var því vistaður í fangaklefa.
Erlendur aðili var handtekinn fyrir of langa dvöl á landinu. Hann var ekki með vegabréf á sér og neitaði að gefa upp hvar það væri og um dvalarstað. Hann var með sölueiningar af meintum fíkniefnum í nærbuxum og sokkum ásamt fjármunum og var vistaður í fangaklefa.
Lögreglustöð 3, sem sinnir Kópavogi og Breiðholti, fékk tilkynningu um nytjastuld á bifreið. Bifreiðin fannst seinna um kvöldið með aðila sem sat í henni. Búið var að setja önnur skráningamerki á bifreiðina. Aðilinn játaði þjófnaðinn á bæði bifreiðinni og skráningarnúmerunum og var vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.