Nikótínpúðar hafa tekið fram úr rafrettum, sígarettum og munntóbaki og tróna nú á toppnum sem algengasta neysluform nikótíns. Fleiri neyta nikótínpúða daglega en rafretta og sígaretta til samans. Þetta kemur fram í talnabrunni Landlæknis.
Mikil aukning hefur orðið á notkun nikótínpúða á þeim þremur árum sem tekin voru fyrir, en hlutfall fullorðinna sem nota nikótínpúða daglega hefur risið úr 9% árið 2021 upp í tæp 12% árið 2024.
Neysla á rafrettum hefur aukist smám saman frá því að þær komu á markað hér á landi, en nú nota um 5% einstaklinga yfir 18 ára aldri rafrettur daglega.
Á móti hefur dregið nokkuð úr reykingum, en hlutfall fullorðinna sem reykja daglega hefur fallið úr 7,2% árið 2021 í 5,6% 2024.
Tíðni reykinga meðal ungmenna mælist einnig mun minni en hjá ungmennum á öðrum Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjum samkvæmt Nordic Welfare Center (NWC).
Í skýrslu NWC segir þó að íslensk ungmenni noti nikótínvörur í meiri mæli yfir heildina litið en ungmenni í fyrrnefndum löndum.
Í talnabrunni embættis landlæknis kemur fram að konur noti rafrettur frekar en karlar, en dagleg notkun karla á nikótínpúðum sé næstum 10 prósentustigum hærri en kvenna (16,3% gegn 6,8%)
Aldursbundins munar á nikótínneyslu gætir einnig, en yngra fólk er líklegra til að nota nikótínpúða og rafrettur en eldra fólk sem kýs heldur að reykja.
Samkvæmt skýrslunni er ein áhrifaríkasta leiðin til að draga úr notkun nikótíns, og þá sérstaklega meðal ungmenna, að hækka álögur á þessar vörur. Nýtt gjald á nikótínvörur sem lagt var um síðustu áramót geti
Þar segir jafnframt að fyrstu niðurstöður úr vöktun embættis landlæknis bendi til þess að dregið hafi úr notkun nikótínpúða á fyrsta fjórðungi ársins 2025. Því megi ætla að lagabreytingin sé þegar farið að skila árangri.