Jóhannes Þór Skúlason, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir ansi miklar fjárhæðir geta verið í húfi fyrir hótel sem að ákveða að taka þátt í hópmálsókn gegn bókunarþjónustunni Booking.com.
Hópmálsóknin byggir á dómi Evrópudómstólsins frá september í fyrra þar sem staðfest var að svokallaðir verðjöfnunarskilmálar (e. price parity clauses) Booking.com hafi brotið gegn samkeppnislögum Evrópusambandsins.
Forsaga málsins er sú að á árunum 2004 til 2024 notaði Booking.com samkeppnishamlandi skilmála sem settu íslensk hótel í óhagstæða samkeppnisstöðu og ollu rekstraraðilum verulegu fjárhagslegu tjóni. Skilmálarnir komu í veg fyrir verðsamkeppni, leiddu til óeðlilega hárra þóknana og takmörkuðu möguleika til að selja gistingu beint til viðskiptavina.
Á miðvikudaginn fór í loftið vefsíða þar sem hóteleigendur geta skráð sig til þátttöku í málsókninni en Jóhannes Þór segist ekki hafa upplýsingar um hvort að mörg íslensk fyrirtæki hafi þegar gert það. Aðspurður segist hann þó frekar gera ráð fyrir því að þátttakan verði góð.
„Þetta er náttúrulega þannig mál og málsókn af þeirri stærðargráðu að það er afar skynsamlegt fyrir öll hótel sem að uppfylla þessi einföldu skilyrði, að hafa verið skráð á Booking.com á milli 2004 og 2024, að skrá sig og taka að minnsta kosti samtalið við innleiðingarteymið í málsókninni,“ segir Jóhannes og bætir við:
„Þarna geta verið mjög miklar fjárhæðir í húfi fyrir hótel, sérstaklega þau sem hafa verið lengi í rekstri og nýtt þessa þjónustu árum saman. Þá geta þetta verið ansi miklar fjárhæðir.“
Þá bendir Jóhannes Þór á að hvorki kostnaðarleg né lagaleg áhætta fylgi því að taka þátt í málsókninni.
„Þetta er fjármagnað af málsóknaraðilum sem að fá þá hluta af því sem dómurinn ákveður falli málið hótelunum í vil,“ útskýrir Jóhannes.
Þá segir hann að auk fjárhagslega ávinningsins fyrir hótelin sendi það líka sterk skilaboð ef að margir taka þátt í hópmálsókninni.
„Það eru afar fáir aðilar á þessum bókunarmarkaði á netinu sem ráða mjög miklu og Booking.com er einn af þessum aðilum sem er í markaðsráðandi stöðu. Eftir að þessi dómur Evrópudómstólsins féll liggur fyrir að fyrirtækið hafi beitt markaðsráðandi stöðu sinni gegn regluverki Evrópusambandsins og á þeim grundvelli skiptir náttúrulega gríðarlegu máli að hótel og hótelsamtök alls staðar í Evrópu taki sig saman og sýni að gistimarkaðurinn og fyrirtækin standi saman þegar kemur að því að verja hagsmuni sína,“ segir Jóhannes.