Meiðyrðamál blaðamannsins Aðalsteins Kjartanssonar gegn Páli Vilhjálmssyni var tekið fyrir í Landsrétti í morgun. Málið snýr að ummælum Páls um Aðalstein varðandi síma- og byrlunarmálið svokallaða.
Páll áfrýjaði málinu til Landsréttar í maí á síðasta ári eftir að Héraðsdómur hafði dæmt ummæli hans um Aðalstein ómerk sem og dæmt hann til að greiða Aðalsteini 1,4 milljónir í málskostnað og 450 þúsund krónur í bætur.
Hafði Páll tjáð sig nokkuð á bloggsíðu sinni um sakamálarannsókn síma- og byrlunarmálsins, þar sem Aðalsteinn hafði stöðu sakbornings, en þar var til skoðunar hvort brotið hafi verið á friðhelgi einkalífs Páls Steingrímssonar skipstjóra.
Í ummælum Páls sem dæmd voru ómerk var meðal annars vísað til þess að Aðalsteinn hefði haft beina eða óbeina aðild að meintri byrlun Páls skipstjóra.
Rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra á síma- og byrlunarmálinu var felld niður í september á síðasta ári.
Aðalsteinn og Páll voru báðir mættir fyrir Landsrétt í morgun til að hlýða á málflutning lögmanna sinna.
Í málflutningi Gunnars Inga Jóhannssonar, lögmanns Aðalsteins, kom fram að Páll þyrfti að bera ábyrgð á ummælum sínum sem hefðu verið tilhæfulausar staðhæfingar og tilbúningur. Hann hafi ekki haft neina aðkomu að málinu heldur fengið áhuga á því eftir að hafa lesið grein um málið árið 2021.
Hafi hann þá t.a.m. sakað Aðalstein um að hafa stolið, logið og komið að byrlun Páls Steingrímssonar sem og spillt rannsókn lögreglunnar.
Þá hefðu ummælin ekki verið í góðri trú heldur þvert á móti, í vondri trú.
Í málflutningi Sigurðar G. Guðjónssonar, lögmanns Páls, kom fram að líta þyrfti á skrif Páls sem skrif sjálfstætt starfandi blaðamanns sem væri að standa vörð um hagsmuni samfélagsins.
Í samtali við mbl.is segir Sigurður að niðurstöðu í málinu sé að vænta frá Landsrétti fyrir réttarhlé sem hefst 1. júlí.
Páll hafði áður verið sakfelldur í héraði í öðru meiðyrðamáli gegn Þórði Snæ Júlíussyni og Arnari Þór Ingólfssyni, en þar sakaði Páll þá Þórð og Arnar um beina eða óbeina aðild að byrlun Páls Steingrímssonar og stuldi á síma hans.
Landsréttur sneri við þeim dómi í maí á síðasta ári og sýknaði Pál. Hæstiréttur hafnaði síðar beiðni þeirra Arnars og Þórðar um áfrýjun dóms Landsréttar.
„Í stóru myndinni snýst þetta um hvað fjölmiðlamenn megi ganga langt í umræðu sem er hvöss, um að segja eitthvað sem er kannski ekki alveg 100% rétt, vegna þess að þetta á erindi við almenning,“ segir Sigurður og vísar jafnframt til þess að finna megi dóma á Íslandi þar sem ærumeiðingar hafa verið sýknaðar þar sem málin höfðu verið talin vera liður í nauðsynlegri þjóðfélagslegri umræðu.
Þá segir hann Pál hafa með ummælum sínum verið að lýsa ástandi blaðamannastéttarinnar. Blaðamennirnir hefðu verið verðlaunaðir fyrir umfjöllun sína á meðan þeir höfðu stöðu sakborninga í sakamáli og að Páll hefði bent á að ekki væri verið að vinna rétt að umfjölluninni.
Ertu bjartsýnn á að Landsréttur snúi við dómnum?
Já, ég verð að vera það. Auðvitað eru þarna hlutir sem eru svona á mörkunum en maður verður að leggja áherslu á heildarsamhengi hlutanna; hver er sú staða sem þú ert inni í þegar þú ert að segja þetta.“