Ummælin séu tilhæfulaus og tilbúningur

Páll Vilhjálmsson og Aðalsteinn Kjartansson.
Páll Vilhjálmsson og Aðalsteinn Kjartansson. Samsett mynd

Meiðyrðamál blaðamanns­ins Aðal­steins Kjart­ans­son­ar gegn Páli Vil­hjálms­syni var tekið fyr­ir í Lands­rétti í morg­un. Málið snýr að um­mæl­um Páls um Aðal­stein varðandi síma- og byrlun­ar­málið svo­kallaða.

Páll áfrýjaði mál­inu til Lands­rétt­ar í maí á síðasta ári eft­ir að Héraðsdóm­ur hafði dæmt um­mæli hans um Aðal­stein ómerk sem og dæmt hann til að greiða Aðal­steini 1,4 millj­ón­ir í máls­kostnað og 450 þúsund krón­ur í bæt­ur.

Hafði Páll tjáð sig nokkuð á bloggsíðu sinni um saka­mál­a­rann­sókn síma- og byrlun­ar­máls­ins, þar sem Aðal­steinn hafði stöðu sak­born­ings, en þar var til skoðunar hvort brotið hafi verið á friðhelgi einka­lífs Páls Stein­gríms­son­ar skip­stjóra.

Í um­mæl­um Páls sem dæmd voru ómerk var meðal ann­ars vísað til þess að Aðal­steinn hefði haft beina eða óbeina aðild að meintri byrlun Páls skip­stjóra.

Rann­sókn lög­regl­unn­ar á Norður­landi eystra á síma- og byrlun­ar­mál­inu var felld niður í sept­em­ber á síðasta ári.

Til­hæfu­laus­ar staðhæf­ing­ar

Aðal­steinn og Páll voru báðir mætt­ir fyr­ir Lands­rétt í morg­un til að hlýða á mál­flutn­ing lög­manna sinna.

Í mál­flutn­ingi Gunn­ars Inga Jó­hanns­son­ar, lög­manns Aðal­steins, kom fram að Páll þyrfti að bera ábyrgð á um­mæl­um sín­um sem hefðu verið til­hæfu­laus­ar staðhæf­ing­ar og til­bún­ing­ur. Hann hafi ekki haft neina aðkomu að mál­inu held­ur fengið áhuga á því eft­ir að hafa lesið grein um málið árið 2021.

Hafi hann þá t.a.m. sakað Aðal­stein um að hafa stolið, logið og komið að byrlun Páls Stein­gríms­son­ar sem og spillt rann­sókn lög­regl­unn­ar.

Þá hefðu um­mæl­in ekki verið í góðri trú held­ur þvert á móti, í vondri trú.

Í mál­flutn­ingi Sig­urðar G. Guðjóns­son­ar, lög­manns Páls, kom fram að líta þyrfti á skrif Páls sem skrif sjálf­stætt starf­andi blaðamanns sem væri að standa vörð um hags­muni sam­fé­lags­ins.

Niður­stöðu að vænta í júní

Í sam­tali við mbl.is seg­ir Sig­urður að niður­stöðu í mál­inu sé að vænta frá Lands­rétti fyr­ir rétt­ar­hlé sem hefst 1. júlí.

Páll hafði áður verið sak­felld­ur í héraði í öðru meiðyrðamáli gegn Þórði Snæ Júlí­us­syni og Arn­ari Þór Ing­ólfs­syni, en þar sakaði Páll þá Þórð og Arn­ar um beina eða óbeina aðild að byrlun Páls Stein­gríms­son­ar og stuldi á síma hans.

Lands­rétt­ur sneri við þeim dómi í maí á síðasta ári og sýknaði Pál. Hæstirétt­ur hafnaði síðar beiðni þeirra Arn­ars og Þórðar um áfrýj­un dóms Lands­rétt­ar.

Sigurður G. Guðjónsson.
Sig­urður G. Guðjóns­son. mbl.is/​María

„Í stóru mynd­inni snýst þetta um hvað fjöl­miðlamenn megi ganga langt í umræðu sem er hvöss, um að segja eitt­hvað sem er kannski ekki al­veg 100% rétt, vegna þess að þetta á er­indi við al­menn­ing,“ seg­ir Sig­urður og vís­ar jafn­framt til þess að finna megi dóma á Íslandi þar sem ærumeiðing­ar hafa verið sýknaðar þar sem mál­in höfðu verið tal­in vera liður í nauðsyn­legri þjóðfé­lags­legri umræðu.

Þá seg­ir hann Pál hafa með um­mæl­um sín­um verið að lýsa ástandi blaðamanna­stétt­ar­inn­ar. Blaðamenn­irn­ir hefðu verið verðlaunaðir fyr­ir um­fjöll­un sína á meðan þeir höfðu stöðu sak­born­inga í saka­máli og að Páll hefði bent á að ekki væri verið að vinna rétt að um­fjöll­un­inni.

Ertu bjart­sýnn á að Lands­rétt­ur snúi við dómn­um?

Já, ég verð að vera það. Auðvitað eru þarna hlut­ir sem eru svona á mörk­un­um en maður verður að leggja áherslu á heild­ar­sam­hengi hlut­anna; hver er sú staða sem þú ert inni í þegar þú ert að segja þetta.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert