Lögreglufulltrúi telur að mikla aukningu haldlagðra fíkniefna á Keflavíkurflugvelli megi rekja til náins samstarfs Tollgæslunnar og lögreglunnar á Suðurnesjum. Þó sé líklega einnig um aukinn innflutning að ræða.
mbl.is greindi frá því í morgun að það stefni í metár í magni kókaíns, kannabisefna og oxycontins sem gert er upptækt á Keflavíkurflugvelli.
Það sem af er ári hefur lögreglan á Suðurnesjum lagt hald á 40,26 kíló af kókaíni, tæp 110 kíló af kannabisefnum og rúmlega 20 þúsund töflur af oxycontini og eftirlíkingum þess á flugvellinum. Allar þessar tölur slaga upp í heildartölur síðasta árs eða hafa þegar toppað þær.
Jón Halldór Sigurðsson fer fyrir rannsókn á skipulagðri brotastarfsemi hjá lögreglunni á Suðurnesjum en spurður hvað valdi þessari miklu aukningu segir hann:
„Ég held að það sé fyrst og fremst það að við séum að ná meira en það er örugglega meiri innflutningur líka. Það er erfitt að segja hvað er að fara í gegn og hvað ekki.”
Hann segir þó augljóst að einhvers staðar sé mun meira magn af fíkniefnum að komast inn í landið. Það sé greinilegt á því að þrátt fyrir þessi miklu afköst lögreglunnar á Suðurnesjum þegar kemur að því að leggja hald á fíkniefni á Keflavíkurflugvelli hafi götuverð efna lítið sem ekkert breyst.
„Það er kannski mælikvarðinn á hvað við erum að gera mikið hér,” segir Jón Halldór.
Þá segir hann að aukninguna í málum á Keflavíkurflugvelli megi sennilega rekja til náins samstarfs lögreglunnar við tollgæsluna á vellinum.
„Tollgæslan og lögreglan á Suðurnesjum hafa unnið mjög náið saman í þessari vinnu við að stoppa þetta á landamærunum og ég myndi segja að þetta væri bara árangur af því samstarfi. Tollverðir eru orðnir mjög færir og glöggir í að stinga út fólk sem er líklegt,” segir Jón Halldór.
Spurður hvort það hafi orðið einhver breyting á eðli málanna síðustu ár segir hann svo ekki vera.
„Þetta er í rauninni mjög svipað. Burðadýrin sem eru með efnin innvortis eru kannski flest að flytja inn eitthvað á bilinu hálft kíló til kíló,” segir Jón Halldór og bætir við:
„Svo höfum við verið að fá eins og núna þrettán kíló af kókaíni í einni tösku og 19 kíló af kannabisefni í einni tösku en það er mjög sérstakt. Yfirleitt er þessu dreift meira og í smærri pakkningum. Yfirleitt eru þetta um 3-4 kíló í hverri tösku.”
Þá segir hann að langstærstur hluti burðardýra sem komi hingað til lands séu erlendir ríkisborgarar.
„Það er hending ef það er Íslendingur einhvers staðar í þessu, það gerast eitt, tvö mál á ári en restin eru útlendingar,” segir Jón Halldór.