Ísleifur Þórhallsson, framkvæmdastjóri Senu Live og formaður Bandalags tónleikahaldara á Íslandi, segir skipulagsleysi hafa ríkt á tónleikum FM95BLÖ sem haldnir voru í Laugardalshöll í gær. Hann segir tónleikahaldara bera ábyrgð á þeim aðstæðum sem sköpuðust.
„Mér sýnist vera nokkuð augljóst að það var illa staðið að þessu frá A til Ö. Það verður bara að segjast alveg eins og er,“ segir Ísleifur.
Hátt í 10 þúsund manns komu saman í Laugardalshöll í gær á tónleikum FM95BLÖ. Þegar gert var hlé á tónleikunum skapaðist mikill troðningur þar sem hættuástand skapaðist og urðu einhverjir undir troðningnum.
Fimmtán manns hafa leitað til bráðamóttökunnar vegna meiðsla eftir tónleikana en einn tónleikagestur var lagður inn. Hann varð undir í troðningi og hlaut beinbrot.
Ísleifur hefur staðið fyrir fjölda stórtónleika hér á landi. Hann segir að Laugardalshöll sé ekki gerð fyrir tónleikahald og því þurfi að huga að ýmsu þegar blása á til jafn stórra tónleika líkt og þeir sem FM95BLÖ stóð fyrir í gær. Bendir hann á að þegar svo mikill fjöldi sækir tónleika snúist starf tónleikahaldarans fyrst og fremst um að tryggja öryggi og vellíðan gesta.
„Það eru ekki inngangar og útgangar fyrir tíu þúsund manna tónleika, það er ekki loftræstikerfi fyrir tíu þúsund manns í níu klukkutíma. Þannig þú þarft að fara í alls konar aðgerðir til að tryggja að öllum líði vel og það var bara ekki gert í gær. Það var enginn að hugsa um þetta neitt,“ segir Ísleifur og bætir við:
„Ef einhver með vit hefði horft á plönin þeirra og dagskrána, eitt svæði, eitt útisvæði, níu tíma dagskrá, barir úti um allt, allir orðnir þreyttir, fullir og með súrefnisleysi, það hefði ekki þurft neinn snilling til að horfa á þetta og segja: Þetta er aldrei að fara ganga upp, þetta verður klúður og þetta er stórhættulegt.“
Ísleifur segir að vel hefði mátt koma í veg fyrir að jafn hættulegt ástand skapaðist líkt og það gerði í gær, til dæmis með því að hólfaskipta tónleikasalnum í tvö til fjögur svæði þar sem gerð eru útisvæði fyrir hvert hólf auk þess sem töluvert meiri gæsla hefði mátt vera á tónleikunum.
Í tilkynningu sem Nordic Live Events, fyrirtækið sem ber ábyrgð á framkvæmd tónleikanna, sendi frá sér í dag segir að ákveðið hafi verið að tvöfalda gæsluna á tónleikunum miðað við kröfur. Jens Andri Fylkisson, sem fór fyrir öryggisgæslu á tónleikunum, sagði í samtali við RÚV að 75 manns hafi verið í gæslu en krafa lögreglu hafi verið 65 manns.
Ísleifur bendir á að þegar Sena Live stóð fyrir tónleikum Backstreet Boys í Laugardalshöll fyrir tveimur árum hafi 144 manns verið í gæslu en fjöldi tónleikagesta var sambærilegur þeim og í gær.
„Þetta er bara á þína ábyrgð sem tónleikahaldari. Þú þarft auðvitað að uppfylla reglurnar og skilyrðin sem löggan setur en þú átt ekki að horfa á það. Þú verður að teikna mynd og raða inn gæslumönnum. Hjá okkur endaði þetta þannig að við bókuðum 144 þótt löggan segði okkur að við þyrftum að bóka miklu færri.“
Bendir Ísleifur jafnframt á að það sé hluti af skipulagi tónleika að tónleikagestir upplifi það sem svo að mikil öryggisgæsla sé á staðnum. Það þurfi að vera frá upphafi til að tryggja vellíðan og öryggistilfinningu gesta.
Upplifi fólk ekki slíkt öryggi geti myndast enn frekara hættuástand þegar fólk fær ekki aðgang að grunnþörfum, líkt og að fá sér vatn, komast á klósett og fá súrefni.
„Þá ertu búinn að búa til hræðilegan kokteil. Fólki er farið að líða illa, lenda í ryskingum, enginn að stoppa það. Þetta leggst allt á eitt,“ segir Ísleifur.
Greint hefur verið frá því í fjölmiðlum í dag að einhverjir tónleikagestir áttu erfitt með að finna öryggisverði til að aðstoða sig þegar þeir slösuðust eða urðu undir í troðningnum. Sumir hafi jafnvel sjálfir þurft að hringja eftir sjúkrabíl.
Aðspurður segir hann muni eftir einu atviki þar sem sambærilegt ástand skapaðist á tónleikum en það var þegar Metallica tróð upp í Egilshöll fyrir hartnær 21 ári.
„Ég hélt að þetta væri búið, hélt að tónleikahald væri orðið faglegra en þetta. Það er mjög sorglegt að þetta sé að gerast aftur.“